Fiðringur í Hofi í kvöld - Miðasala í fullum gangi
Í kvöld fer fram Fiðringur á Norðurlandi í Menningarhúsinu Hofi.
Fiðringur er hæfileikakeppni fyrir nemendur í 8. til 10. bekk grunnskóla á Norðurlandi.
Átta skólar taka þátt en hver skóli má senda eitt atriði.
„Allar listgreinar eru undir og verður spennandi að sjá hvað hvílir helst á nemendum norðanlands, þetta er dýrmætur vettvangur til þess að láta rödd sína heyrast,“ segir María Pálsdóttir verkefnastjóri Fiðrings.
Fiðringur er að fyrirmynd Skrekks í Reykjavík og Skjálftans á Suðurlandi en nú er komið að skólum á Norðurlandi að spreyta sig.
Í dómnefnd eru fulltrúar úr ungmennaráði Akureyrarbæjar, Marta Nordal leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Anna Richardsdóttir listakona. Kynnar eru leikarnir Árni Beinteinn og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir og engir aðrir en Jói P og Króli troða upp auk þess sem norðlenski rapparinn Ragga Rix kemur fram.
Miðasala er hér. Aðeins kostar 1000 krónur inn.
Sýnt verður beint frá Fiðringi á Rúv 2. Útsendingin hefst klukkan 20.00.