Magnaður maí hjá Menningarfélagi Akureyrar
Sumarið heilsar með áheyrnarprufu fyrir Litlu Hryllingsbúðina 1. maí þar sem leitinni að Auði heldur áfram. Í þetta skipti fara prufurnar fram á Akureyri en prufur hafa þegar farið fram í borginni. Sýningar á söngleiknum Litla Hryllingsbúðin hefjast í október en forsölutilboð er í fullum gangi á mak.is.
Núna á laugardaginn, 4. maí, verður opnuð myndlistarsýningin Forðabúr hjartans þar sem 43 félagar í Myndlistafélaginu sýna verk sín.
Sama dag er komið að ABBA sýningunni Waterloo með þeim Elísabetu Ormslev, Regínu Ósk, Stefaníu Svavars og Jóhönnu Guðrúnu. Tvennar sýningar verða, klukkan 17 og klukkan 21. Enn er hægt að tryggja sér miða á mak.is.
Á sunnudaginn, 5. maí, fer fram 10 ára afmælissýning DSA. Á sýningunni koma fram nemendur á aldrinum 2 - 60 ára.
Fiðringur á Norðurlandi verður haldinn í Hofi í þriðja sinn þann 8. maí. Tíu skólar taka þátt í ár og mætast þeir á úrslitakvöldinu og sýna afrakstur vinnu sinnar. RÚV mun taka upp atriðin og birta þau á sínum miðlum.
Laugardaginn 11. maí er komið að tónleikunum Í fjallasal – töfratónar Griegs þar sem áhorfendur fljúga á vængjum söngsins til Noregs. Viðburðurinn nýtur styrks frá Verðandi listsjóðs.
Enginn annar en Herra Hnetusmjör heldur fjölskyldutónleika í Hofi 20. maí. Herra mun halda tvenna tónleika, þá fyrri klukkan 14 og þá síðari klukkan 16. Enn eru lausir miðar á mak.is.
Þetta er aðeins brot af viðburðum sem fara fram í maí mánuði. Til að mynda eru fjöldi vortónleika sem og framhaldsprófs tónleika Tónlistarskólans á Akureyri, danssýning Steps og útskrift Verkmenntaskólans á Akureyri. Fylgist með á mak.is!