Erró í Hofi
Tuttugu og átta grafíkverk eftir Erró sem eru í eigu Listasafns Reykjavíkur munu prýða veggina í Menningarhúsinu Hofi í vetur en árið 1989 gaf Erró safninu um tvö þúsund verk sem spanna allan feril listamannsins. Verkin sem verða til sýnis í Hofi eru litógrafíur og silkiþrykk.
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir framkvæmdarstjóri Hofs segir samstarfið við Listasafn Reykjavíkur virkilega ánægjulegt. „Það er mikill heiður fyrir okkur að fá að sýna verk eftir þennan virta listamann hér í Hofi og vonandi sjá sem flestir norðlendingar, og aðrir sem eiga leið um bæinn sér fært að heimsækja Hof í vetur og njóta sýningarinnar. Sýningin er öllum opin á opnunartíma hússins og verkin eru litrík og lifandi og njóta sín einstaklega vel á gráu sjónsteypuveggjunum í Hamragili.“
Grafíkverk Errós hafa þróast samhliða málverkum hans. Á árunum 1963-1964 urðu mikilvæg þáttaskil í list hans þegar hann hætti að skapa form og fígúrur og hóf þess í stað að nýta sér fjöldaframleiddar myndir neyslusamfélagsins við gerð klippimynda, sem urðu síðan fyrirmyndir að málverkum og/eða grafíkverkum.
Danielle Kvaran verkefnastjóri hjá Listasafni Reykjavíkur segir forsvarsmenn safnsins vera ákaflega stolta af Erró safninu en frá því að tekið var við þeim tvö þúsund verkum sem Erró færði safninu fyrir tuttugu og fjórum árum hafa önnur tvö þúsund bæst við og telur það núna um fjögur þúsund verk. Danielle segir það virkilega gaman að geta sýnt verk úr safninu utan Listasafns Reykjavíkur. „Söfn eru ekki byggingar og það er alltaf markmið okkar sem störfum í söfnum að sem flestir fái tækifæri til að njóta listarinnar. Það er því virkilega ánægjulegt að geta tekið þátt í því að íbúar utan höfuðborgasvæðisins fái tækifæri til að kynna sér þessi verk eftir Erró sem eru í eigu safnsins.”
Sýningin á verkum Errós í Hofi opnar laugardaginn 26. október kl. 14 og eru allir velkomnir á opnunina. Sýningin stendur til 21. apríl 2014.