Fagnaðarkantata á fullveldisafmæli
Þann 1. desember verður flutt glæný fagnaðarkantata „Út úr kofunum“ í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem kynslóðir og tónlistarstefnur mætast og fagna saman fullveldinu með norðlenskum ofurkröftum. Höfundur verksins er Michael Jón Clarke en flytjendur eru Stefán Jakobsson, Þórhildur Örvarsdóttir, Gísli Rúnar Viðarsson, Hymnodia, Eyþór Ingi Jónsson, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, ungmennakórinn Æskuraddir fullveldisins, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og ungir strengjaleikarar í Strengjasveit fullveldisins. Höfundur texta er Sigurður Ingólfsson.
„Verkið er ljóðræn útfærsla á þeim breytingum sem verða hjá þjóðinni frá því hún byrjar að líta hugdjarfari en fyrr til framtíðar og losa af sér hlekki og „klakabönd“ fortíðar,“ segir Michael Jón Clarke. Þar sé rakin, án þess að um beina sagnfræði sé að ræða, vegferð og hugarfarsbreytingar á tiltölulega stuttu en gríðarlega mikilvægu og kraftmiklu tímabili í lífi þjóðar, frá fullveldis til lýðveldis.
„Í tilefni 100 ára afmælis fullveldisins horfum við um öxl og könnum hvaðan við erum komin, hvers konar samfélag það var sem í upphafi síðust aldar ól af sér þetta fullvalda ríki Ísland,“ segir Kolbrún Halldórsdóttir, verkefnisstjóri fullveldishátíðar, og bætir við að á sjálfan afmælidaginn sé gott að finna fyrir sögunni. „Og vita að hún er okkur aðgengileg, við höfum hana meðferðis í bakpokunum þegar við beinum sjónum okkar mót framtíðinni, til næstu 100 ára. Á slíkum tímamótum fyllumst við bjartsýni og heitum sjálfum okkur því að vinna fullveldinu gagn með gjörðum okkar, svo það fái dafnað komandi kynslóðum til heilla,“ segir Kolbrún.
Verkið, sem hlaut meðal annars styrk frá Afmælisnefnd fullveldis Íslands, verður flutt laugardaginn 1. desember klukkan 20.00 í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Miðasala er í fullum gangi á www.mak.is