Fiðringur framundan
Fiðringur á Norðurlandi fer fram í Hofi í fjórða sinn þann 7. maí næstkomandi. Í ár munu tíu skólar af Norðurlandi mætast í Hofi. Nú tekur Grunnskóli Húnaþings vestra þátt í fyrsta sinn og vonandi taka fleiri skólar frá Norðurlandi vestra þátt á næsta ári því markmiðið er að sinna öllu Norðurlandi frá Borðeyri til Bakkafjarðar!
Nemendur á unglingastigi þátttöku skólanna hafa unnið að sínum atriðum alla vorönnina undir handleiðslu leiðbeinanda en mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og lýðræðisleg vinnubrögð. Hugmyndin og útfærslan kemur frá nemendum sjálfum, þeir sjá alfarið um listræna útfærslu hvað varðar búninga, leikmynd, sviðhreyfingar, ljós og hljóð þannig að þátttaka í Fiðringi þjálfar sköpunarvöðva þátttakenda hressilega! Það verður spennandi að sjá og heyra afraksturinn í Hofi þar sem ungmennin fá að tjá sig um það sem þeim liggur á hjarta á listrænan hátt.
Fiðringslagið verður flutt í dómarahléi á úrslitakvöldinu en í ár kusu nemendur lagið Hjörtu með Daniil sem mætir á svæðið og skemmtir áhorfendum.
Kynnar í ár eru MA-ingarnir Hákon Snorri Rúnarsson og Vilté Petkuté en þau tóku bæði þátt í Galdrakarlinum í Oz með LMA á dögunum.
Í dómnefnd sitja Bergur Þór Ingólfsson leikhússtjóri LA, Ingunn Elísabet Hreinsdóttir dansari og kennari og París Anna Bergmann fulltrúi Ungmennaráðs Akureyrar. Eyrún Huld Haraldsdóttir íslenskukennari metur hvaða skóli notar íslenska tungumálið á mest skapandi og skemmtilegan hátt og sérstök verðlaun verða veitt fyrir það.
Nemendur þátttökuskólanna fá senda hlekki frá skólastjóra til að kaupa miða á tix.is og sitja með sínum skóla en almenn miðasala á efra svæðið fyrir aðstandendur og vini fer í sölu 1. maí á tix.is.
Komið og sjáið sviðslistafólk framtíðarinnar í Hofi 7 maí!
Fiðringur á Norðurlandi er áhersluverkefni SSNE í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar að frumkvæði Maríu Pálsdóttur