Fimm nýir heiðursfélagar
Á aðalfundi Leikfélags Akureyrar, fimmtudaginn 21. nóvember, voru fimm listamenn gerðir að heiðursfélögum; Aðalsteinn Bergdal, Arnar Jónsson, Gestur Einar Jónasson, Saga Geirdal Jónsdóttir og Þórhildur Þorleifsdóttir. Öll voru þau meðlimir í leikhópnum sem ráðinn var til starfa haustið 1973. Leikfélag Akureyrar varð þar með atvinnuleikhús og fagnar 40 ára afmælinu með ýmsum hætti á þessu leikári meðal annars með uppsetningu á Gullna hliðinu eftir Davíð Stefánsson en Aðalsteinn, Arnar, Gestur og Saga hafa öll leikið í uppfærslum á verkinu hjá leikfélaginu. Auk ofantaldra voru Þráinn Karlsson, Þórhalla Þórsteinsdóttir og Sigurveig Jónsdóttir meðlimir þessa fyrsta atvinnuleikhóps LA. Þráinn og Þórhalla eru nú þegar heiðursfélagar en Sigurveig lést 3. febrúar 2008.
Mynd: Gestur Einar Jónasson, Saga Geirdal Jónsdóttir og Aðalsteinn Bergdal á aðalfundi Leikfélags Akureyrar.