Fara í efni

Flott gagnrýni Fréttablaðsins - Helgi magri

Í fréttablaðinu í dag skrifar Sigríður Jónsdóttir, leiklistagagnrýnandi blaðsins, um sýninguna okkar Helga magra. Hún segir meðal annars "Leikmyndin er hugvitsamleg og áferðarfögur þar sem einfaldleikinn ræður ríkjum. Lýsingin er sömuleiðis heillandi og áhrifarík með litríkum blæbrigðum. Ekki skemmir fyrir að sýningin fer fram í Samkomuhúsinu sem bæði skapar ljúft andrúmsloft og tengir líka laglega við menningarsögu Akureyrar.  

Sigríður bendir á í umfjöllun sinni  að Matthías Jochumsson, sem skrifaði upphaflega verkið sem trúðarnir setja á svið í Helga magra, hafi sjálfur skrifað að leikurinn hafi verið saminn í því sérstaka augnamiði að vera sýndur á Akureyri og ef hann væri bæði boðlegur og sagnfræðilega þolanlegur þá væri takmarkinu náð. Hún segir einnig "Helgi magri í meðförum trúðanna fjögurra virðist ná þrennunni og er hin ágætasta byrjun á leikári Leikfélags Akureyrar. Þá er einstaklega ánægjulegt að ungum leikurum sé gefið tækifæri til að skapa og vinna að sýningu innan veggja hússins. Þó að niðurstaðan hafi ekki heppnast nægilega vel í þetta skiptið þá er vert að hvetja áhorfendur um land allt til að styðja við Leikfélag Akureyrar á komandi leikári". 

 Hún gefur verkinu þrjár stjörnur af fimm.  

Það er þvi ekki úr vegi að minna þá sem eiga eftir að sjá þetta kærleiksríka verk að drífa sig í leikhús því síðasta sýningin er í kvöld, fimmtudaginn 22. september kl 20 í Samkomuhúsinu. Hægt er að tryggja sér miða á mak.is, í miðasölunni í Hofi sem opin er virka daga kl 12-18 og í síma 450 1000.

Hér má sjá gagnrýni Sigríðar í Fréttablaðinu í heild sinni.

Til baka