Fjölbreyttur janúarmánuður í Hofi og Samkomuhúsinu
Janúarmánuður verður heldur betur fjölbreyttur í Menningarhúsinu Hofi og Samkomuhúsinu.
Núna á laugardaginn fer fram athyglisverður viðburður í Hofi sem ber nafnið Töfrarnir í aukaskrefinu. Þar mun fyrirlesarinn Sverrir Ragnarsson kenna hvernig við getum bætt okkur á öllum sviðum í lífinu og tekið aukaskrefið. Sverrir verður bæði með fyrirlestur fyrir fullorðina og börn. Miðasala er í fullum gangi á mak.is.
Sunnudaginn 8. janúar býður kvennakórinn Emla nýja árið velkomið með sannkallaðri Vínarveislu í Hömrum í Hofi. Einsöngvari með kórnum er stórtenórinn Gissur Páll Gissurarson. Stjórnandi er Roar Kvam.
Þann 14. janúar er komið að glæsilegum nýárstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands undir stjórn Daníels Þorsteinssonar. Stórsöngvarar eru Þóra Einarsdóttir, Andri Björn Róbertsson, Hanna Dóra Sturludóttir, Dagur Þorgrímsson og Gísli Rúnar Víðisson. Á tónleikunum verður frumflutt Fantasía um Ólaf Liljurós sem Michael Jón Clarke samdi sérstaklega að tilefninu. Michael Jón verður einnig með kynningu fyrir tónleikana sem hefst klukkustund fyrir á veitingastaðnum í Hofi.
Loksins er svo komið að sjálfum Ara Eldjárn laugardaginn 21. janúar. Áramótaskop Ara átti að fara fram í Hofi fyrir jólin en var frestað þar sem uppistandarinn var veðurtepptur á Selfossi. Ari stígur á svið klukkan 19 og svo aftur klukkan 22. Þegar þetta var skrifað voru til tveir miðar á hvora sýningu þannig að áhugasamir eru hvattir til að hafa snör handtök hafi þeir ekki enn tryggt sér miða.
Tónlistarfélag Akureyrar heldur tónleikana Rætur í Hömrum í Hofi sunnudaginn 22. janúar. Á viðburðinum munu fjórar ungar konur leika saman og bjóða áhorfendum að sökkva sér inn í ævintýraheima píanókvartettsins í gegnum aldirnar.
Föstudaginn 27. janúar er komið að stóru stundinni þegar Leikfélag Akureyrar frumsýnir söngleikinn Chicago í Samkomuhúsinu. Með aðal hlutverkin fara Jóhanna Guðrún og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Leikstjóri er Marta Nordal. Uppsetningin er samstarfsverkefni Leikfélags Akureyrar og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.
Miðasala á alla viðburðina er á mak.is, á midasala@mak.is og í síma 450-1000.
Héðan í frá gilda gjafakort Menningarfélags Akureyrar á alla viðburði í Menningarhúsinu Hofi og Samkomuhúsinu. Gjafakortin gilda ekki lengur í hönnunarversluninni Kistu né á veitingastaðnum Garúnu. Gjafakort MAk fást á mak.is og í miðasölu Hofs.
Menningarfélag Akureyrar óskar öllum viðskiptavinum sínum gleðilegs nýs árs!