Fjölbreyttur maí í Hofi!
Maí mánuður verður fjölbreyttur í Menningarhúsinu Hofi!
Myndlistasýningin 10+ stendur yfir í Hamragili en sýningin, sem er samsýning 14 akureyrskra listakvenna sem hafa orðið á vegi Katrínar eiganda Kistu. Sýningin er haldin í tilefni rúmlega tíu ára afmælis Kistu í Hofi. Sýningin stendur til 22. maí.
Tónlistarskólinn á Akureyri heldur fjölda vortónleika í mánuðnum. Nánari upplýsingar um viðburðina eru á mak.is og tonak.is.
Þann 6. maí er komið að danssýningunni Afsakið hlé en þá munu nemendur DSA sýna afrakstur annarinnar. Dansskólinn Steps heldur svo sína sýningu laugardaginn 13. maí.
Tónleikarnir Steinunn Arnbjörg og stofutónlistin er á dagskrá í Hömrum 14. maí. Steinunn hefur fengið frjálsar hendur til að sníða efnisskrá sem varpar ljósi á viðfangsefni hennar í listum en um leið leyfir hún tónleikagestum að hlýða á bitastæð kammerverk í meðförum strengjaleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Miðasala er í fullum gangi á mak.is.
Þann 20. maí er komið að sönghópnum Rok sem heldur sýna fyrstu tónleika og ráðast þau ekki á garðinn þar sem hann er lægstur heldur ætla að skella sér beint í rokkið. Hver er ekki til í nostalgíuna sem fylgir því að hlusta á lög með Scorpions, Heart, Queen, Led Zeppelin ásamt ýmsum öðrum í magnaðri rokksögu síðustu áratuga? Tónleikarnir eru styrktir af VERÐANDI listsjóði. Miðasala á mak.is.
Listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir verður með sumarsýninguna í Hofi þetta sumarið. Opnun sýningarinnar er 27. maí kl. 14. Öll velkomin.