Fjölbreyttur mars framundan!
Mars er mættur með hækkandi sól og fjöldan allan af áhugaverðum viðburðum hjá Leikfélagi Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarhúsinu Hofi.
Í Samkomuhúsinu halda sýningar áfram á verkinu And Björk of course.. Verkið hefur fengið frábærar viðtökur en nú eru allra síðustu sýningarnar komnar í sölu. Ekki missa af þessari einstöku sýningu en athugið að sýningin er merkt með trigger warning. Nánari upplýsingar um TW er á mak.is. Verkið verður svo sýnt í Borgarleikhúsinu í apríl.
Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýnir ævintýrasöngleikinn um spýtustrákinn Gosa eftir Karl Ágúst Úlfsson og Þorvald Bjarna Þorvaldsson í Hofi 8. mars. Sýningar LMA einkennast af miklum hæfileikum, metnaði, glæsibrag og töfrum. Hér er á ferðinni metnaðarfull uppsetning þar sem hátt í 90 nemendur taka þátt í sýningunni, hvort sem það er á sviðinu eða á bak við tjöldin. Leikstjóri er Marta Nordal en tónlistarstjóri Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson.
Blásarasveitir Tónlistarskólans á Akureyri kynna Tölvuleikja- og teiknimyndatónleika í Hömrum í Hofi 12. mars. Frítt inn en opið er fyrir frjáls framlög.
Föstudagskvöldið 15. mars er komið að uppistandinu Púðursykur. Hópurinn samanstendur af mörgum vinsælustu skemmtikröftum landsins. Þetta verður skotheld hláturskemmtun sem enginn ætti að missa af.
Á sama tíma verða útgáfutónleikarnir Úr tóngarðinum, sem er samstarfsverkefni Sigríðar Huldu Arnardóttur og Brynjólfs Brynjólfssonar, í Hömrum. Tónleikarnir eru styrktir af VERÐANDI listsjóð.
Laugardagskvöldið 16. mars er komið að sýningunni Til hamingju með að vera mannleg. Sýningin er byggð á ljóðabók Siggu Soffíu sem hún samdi þegar hún gekk í gegnum krabbameinsmeðferð í heimsfaraldri. Hvað gerir dansari sem getur ekki dansað? Verkið fjallar um mikilvægi vináttunar, um andlegan styrk og um samfélag kvenna sem standa hver með annarri. Athugið að 1000kr af hverjum seldum miða ganga til Krabbameinsfélags Akureyrar.
Um páskana verða þrjár sýningar af Litla skrímslinu og stóra skrímslinu í Samkomuhúsinu. Leikritið Litla skrímslið og stóra skrímslið er falleg og einlæg saga um vináttu og samskipti. Verkið er sérstaklega ætlað yngri börnum þó fullyrða megi að öll fjölskyldan muni hafa gaman að uppátækjum og hjartnæmu sambandi skrímslanna. Um síðustu sýningarnar eru að ræða.
Á skírdag er komið að stóru stundinni þegar stórhljómsveitin Stjórnin kemur í fyrsta sinn fram með sinfóníuhljómsveit á tónleikunum Stjórnin og SinfoniaNord. Ekki missa af einni vinsælustu popphljómsveit Íslandsögunnar ásamt Sinfóníuhljómsveit Norðurlands um páskana í Hofi.
Að lokum minnum við á myndlistarsýningu Stefáns Boulter sem stendur yfir í Hofi sem og veitingahúsið Móa sem er opið alla virka daga frá 10-16 og þegar viðburðir eru í húsinu.
Gleðilegan marsmánuð!