Fjölbreyttur október framundan
Það er fjölbreyttur október framundan og margt sem göfgað getur manninn í byrjun vetrar í Hofi og Samkomuhúsinu.
Átta sýningar á gamanleik Hunds í óskilum KVENFÓLK, sem LA tók til sýninga um síðustu helgi, eru framundan nú í október. Verkið hefur fengið afbragðs dóma og fullt hefur verið uppí rjáfur á þær sýningar sem þegar hafa verið. Vinnusmiðjan Girrrrrls fyrir stelpur á aldrinum 12-16 ára er um helgina, en það er fyrsta verkefni Borgarasviðsins. Í Samkomuhúsinu er einnig gestasýning LA Þú kemst þinn veg, sem byggir á sögu Garðars Sölva Helgasonar sem glímir við geðklofa en tekst á við erfiðleikana á einstakan og heillandi hátt.
Anna Richardsdóttir leiðbeinir byrjendum og stýrir lengra komnum í salsadansi í viðburðaröð Menningarfélagsins KOMDU AÐ DANSA um miðjan mánuðinn og grínararnir í Mið -Íslandi kitla hláturtaugarnar á kosningadaginn. Ekki er ólíklegt að það grín verði með pólitískum blæ.
Rúsínan í pylsuendanum þennan mánuðinn er finnsk vika í Hofi 16.-22. okt. Tilefnið er aldarafmæli finnska lýðveldisins og því verður finnsk menning í hávegum höfð og eitthvað fyrir öll skynfærin. Harmonikkufélag Eyjafjarðar verður með tangóskotið harmonikkuball í Hömrum, matseðill 1862 Nordic Bistro verður með finnsku ívafi og gestir veitingastaðarins geta notið upplesturs velkunnra Akureyringa, sem lesa uppúr finnskum bókum, í hádeginu þessa viku, norræna félagið býður áhugasömum uppá pub quiz á R5, sögu- og föndurstund verður á laugardagsmorgninum fyrir börnin í samvinnu við Amtsbókasafnið og finnskar vörur í hávegum í versluninni Kistu.
Hápunktur þessarar finnsku þemaviku eru stórtónleikarnir FINLANDIA og FRÓN. Þar stjórnar finnski snillingurinn Petri Sakari flutningi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á verkum Síbelíusar og Áskels Mássonar. Á tónleikadaginn sjálfan, sunnudaginn 22. október kl. 15, verður finnski sendiherrann með kynningu áður en tónleikarnir sjálfir hefjast þar sem allir eru hjartanlega velkomnir.
Ekki má gleyma að húsarkynnin verða böðuð bleikum ljósum utanhúss í mánuðnum í tilefni af bleikum október. Á dömulegum dekurdögum, sem hefjast á föstudaginn 6.október, verður pop up markaður í Kistu og boðið uppá bleikan drykk og smakk frá 1862 Nordic Bistro. Auk þess býður veitingarstaðurinn uppá dömulegan matseðil alla helgina.
Það er nóg um að vera í Hofi og Samkomuhúsinu í vetur og við hvetjum alla til að fylgjast vel með á heimasíðunni til að missa ekki af öllum þeim hnallþórum, smákökum og randalínum sem boðið verður uppá í veislu vetrarins.