Fara í efni

Fjórar leiksýningar og sjö tónleikasýningar um helgina

Það er risastór helgi framundan hjá Menningarfélagi Akureyrar og stefnir í gríðarlegan fjölda gesta, bæði í Samkomuhúsinu sem og Hofi.

Fjölskyldu- og jólaleikritið Jóla Lóla verður frumflutt í Samkomuhúsinu kl. 13 á laugardag. Í kjölfar frumsýningar verða þrjár aðrar sýningar um helgina. Kl. 15 á laugardag og kl. 13 og 15 á sunnudag. Miðasala er á www.mak.is

Jóla Lóla er þræl skemmtilegur söngleikur fyrir alla fjölskylduna sem kallar fram jólabarnið í öllum. Öll lögin eru samin af leikhópnum, sem samanstendur af Urði Bergsdóttur, Króla og Hjalta Rúnari Jónssyni og leikstjóranum Bergi Þór Ingólfssyni. Öll tónlist er útsett af Jóa Pé, tónlistarstjóra sýningarinnar.

Í Hofi stíga á stokk sölumethafarnir, sprelligosarnir og Vitringarnir 3 sem eru hvorki meira né minna en með sjö uppseldar sýningar um helgina. Friðrik Ómar og félagar eru þó ekki óvanir húsfylli í Hofi þar sem hann ásamt góðum gestum hefur sett upp fjölda viðburða við góðan orðstír.  Undantekningalaust hefur verið uppselt á þá viðburði.

Vitringarnir 3 eru þeir Eyþór Ingi, Jógvan og Friðrik Ómar. Þeim til samlætis á sviðinu eru Meyjarnar 3, þær Salka Sól, Selma Björns og Regína Ósk.

Það er því nóg um að vera nú sem endranær og mega gestir Samkomuhússins og Hofs eiga von á margvíslegri upplifun á aðventunni.

Til baka