Fara í efni

Frábær helgi framundan

Núna um helgina eru tvær uppseldar sýningar af Óbærilegum léttleika knattspyrnunnar framundan í Samkomuhúsinu. Sýningin hefur slegið í gegn í Reykjavík og var mikið hlegið í gærkveldi þegar fyrsta sýning af þremur norðanlands var sett upp.

Einnig er uppselt á heiðurstónleika Led Zeppelin á laugardagskvöldinu í Hofi en örfáir miðar eftir á tónleikana kl. 17. Þar sem The Vintage Caravan, ein kraftmesta tónleikasveit landsins, mun flytja mörg af bestu lögum Led Zeppelin, ásamt Matta Matt, Eyþóri Inga, Stefaníu Svavars og Degi Sigurðssyni.

Fyrir áhugafólk um tónlist lókal listamanna þá er raftónlistarmaðurinn Agnar Forberg, öðru nafni Spacement með tónleika í Hofi í kvöld kl. 20. Uppistaða tónleikanna verða lög af annarri plötu Spacement, Kærleikur og kvíði. Lögin eru fjölbreytileg með alls konar þemu, „allt frá fuglasöng til ástarsorgar og alls konar þar á milli.

Og fyrir þau sem vilja taka rölt í gegnum húsið og fá sér kaffi og kruðerí á Móa Bistro þá er sýning með myndlist Ástu Sigurðardóttur í Fullum gangi á veggjum Hofs. Ásta fékkst við málaralist, teikningu og grafík, auk þess sem hún myndskreytti og hannaði spil með mögnuðum teikningum af þekktum íslenskum þjóðsagnapersónum. Ásta lést ung og lánaðist þó ekki að klára spilin, en þau voru gefin út fullkláruð fyrir tilstuðlan afkomenda hennar af Forlaginu 2022. Það eru svipsterkir íslenskir galrdamenn, galdrakonur og draugar sem prýða mannspil Ástu, á ásunum eru kynjaskepnur og kyngimögnuð lyfjagrös og íslensku galdrastafirnir Ægishjálmur, Þórshamar, Kaupaloki og Ginfaxi eru notaðir til að einkenna hverja sort.

Til baka