Freddy Mercury heiðurstónleikar
Söngvarar:
Matthías Matthíasson, Friðrik Ómar, Magni Ásgeirsson, Valur Hvanndal, Svenni Þór og Hulda Björk Garðarsdóttir
óperusöngkona.
Hljómsveit:
Þórir Úlfarsson - hljómborð/hljómsveitarstjóri, raddir
Halldór G Hauksson (Halli Gulli) - trommur
Ingi Björn Ingason -
bassi
Einar Þór Jóhannsson - gítar , raddir
Kristján Grétarsson -
gítar
Stefán Gunnlaugsson - hljómborð,
raddir
Hannes Friðbjarnarson – slagverk, raddir
Raddsveit:
Alma Rut Kristjánsdóttir, Íris Hólm, Ína Valgerður Pétursdóttir, Ingunn Hlín Friðriksdóttir og Davíð Smári
Harðarson.
Hljóðmeistari:
Haffi
Tempó
Ljósameistari:
Agnar Hermannsson
Freddie Mercury (Farrokh Bulsara) fæddist á eyjunni Sansibar í Indlandshafi 5. september 1946. Þar ólst hann upp en dvaldi löngum hjá ömmu sinni á Indlandi. Hann byrjaði ungur að læra á píanó og varð heillaður af gítarnum á unglingsárum. Tólf ára gamall stofnaði hann fyrstu hljómsveitina sem spilaði rokk- og popplög sem Little Richard og Cliff Richard höfðu gert vinsæl. Hann tók upp nafnið Freddie löngu áður en fjölskyldan neyddist til að flytja til Englands í kjölfar byltingar sem gerð var á Sansibar árið 1964. Þar fór hann í listaskóla og útskrifaðist sem hönnuður frá Ealing Art College en hlaut ekki neina söngmenntun þó svo að eðlislæg söngrödd hans spannaði óvenjuvítt raddsvið. Hann fór létt með að syngja djúpan bassa og háa tenórtóna og allt þar á milli sem átti sinn þátt í hversu fjölhæfur rokksöngvari hann var.
Freddie prófaði sitthvað eftir skólann. Hann fór á milli hljómsveita, seldi notuð föt og var um tíma í starfi á Heathrow flugvelli áður en hann kynntist gítarleikaranum Brian May og trommaranum Roger Taylor í apríl 1970. Þeir hófu æfingar og tóku upp nafnið Queen um líkt leyti og bassaleikarinn John Deacon gekk í hljómsveitina í ársbyrjun 1971. Þeir undirrituðu útgáfusamning við bresku útgáfusamsteypuna EMI 1972 og gáfu út fyrstu plötuna Queen árið eftir. Platan innihélt tónlist sem var á mörkum glyspopps og þungarokks og vakti nokkra athygli. Önnur platan Queen II náði 5. sæti breska breiðskífulistans. Þriðja platan Sheer Heart Attack kom þeim á kortið í Bandaríkjunum þegar titillagið náði inn á vinsældarlista. Fjórða platan A Night At The Opera varð til þess að Queen komst í úrvalsdeildina. Lagið Bohemian Rhapsody sem Freddie samdi sat í efsta sæti breska listans í 9 vikur og öðlaðist vinsældir víða um heiminn. Platan News Of The World sem kom út árið 1977 innihélt lögin We Are The Champions og We Will Rock You sem hljóma er fólk sameinast í söng á íþróttakappleikjum og álíka samkomum.
Freddie var fjölhæfur laga- og textasmiður og spanna lögin hans vítt svið, allt frá rokk- og diskósöngvum yfir í flóknari verk. Queen var ein áhugaverðasta rokksveit síns tíma m.a. vegna þessa fjölbreytileika. Freddie var sannkallaður smellasmiður sem samdi t.a.m. 10 af 17 lögum sem komu út á safnplötunni The Greatest Hits árið 1981.
Freddie var atkvæðamikill á sviði og skópu leikrænir tilburðir hans þá umgjörð sem Queen byggði hljómleikahald sitt á. Margir urðu vitni að því á Live Aid hljómleikunum, sem var sjónvarpað um allan heim árið 1985, hvernig hann stjórnaði 72.000 manna áhorfendaskara og fékk alla til að syngja með sér, klappa og hreyfa sig í takt.
Freddie reyndi fyrir sér sem sólósöngvari í fyrsta sinn þegar hann gerði smáskífu undir nafninu Larry Lurex árið 1973. Næsta sólólag var Love Kills sem kom út 1984 og ári seinna gerði hann einu sóló breiðskífuna Mr. Bad Guy. Hann var hugfanginn af heimi óperunnar og gerði plötuna Barcelona með spænsku óperudívunni Monsarret Caballé árið 1988. Þau komu fram saman á stórtónleikum í Barcelona síðla árs 1988 en eftir það dró hann sig nánast alveg í hlé.
Freddie Mercury lést á heimili sínu í Knightsbridge 24. nóvember 1991 aðeins 45 ára gamall.
Hann er enn dýrkaður og dáður og aðdáendurnir muna hann sem forsöngvara og leiðtoga bresku sveitarinnar Queen sem átti fjölda metsöluplatna og ógrynni vinsældarlaga.
Jónatan Garðarsson