Fréttatilkynning frá Leikfélagi Akureyrar
Leikfélag Akureyrar er um þessar mundir að ljúka leikári sem hefur einkennst af jákvæðum viðtökum, aukinni aðsókn og auknum miðasölutekjum. Áður hefur þó komið fram að opinber framlög til LA, sem eru raunverulegur rekstrargrundvöllur félagsins, eru að krónutölu þau sömu og árið 2004, eða fyrir tíu árum síðan. Að mati stjórnar og stjórnenda Leikfélags Akureyrar er því ljóst að ekki er hægt að halda úti starfsemi leikfélagsins nema til komi leiðrétting á opinberum framlögum.
Leikfélag Akureyrar hefur farið þess á leit við bæjarráð Akureyrarbæjar að samningur félagsins við bæinn verði tekinn til endurskoðunar þannig að unnt verði að treysta og halda úti atvinnustarfsemi í leiklist á Akureyri. Með hugsanlegri sameiningu rekstrar LA, Hofs og SN mætti nýta betur það fé sem yfirvöld vilja leggja til menningarstarfsemi í bænum. Beiðnin fól í sér að til þess að ná sem mestri samfellu í starfi Leikfélags Akureyrar fram að og að lokinni sameiningu fái LA fjárframlög leikársins 2014-15 greidd út fyrir áramót 2014. Þannig yrði hægt að frumsýna leiksýninguna Lísu í Undralandi í október, greiða skuldir LA og skila inn fé til nýs félags til undirbúnings starfsársins 2015-16. Á vorönn 2015 væri mögulegt að taka við gestasýningum, halda úti hinni öflugu starfsemi leiklistarskóla LA, efla fullorðinsfræðslu og vera í samvinnu við leikfélög MA og VMA um uppsetningar á þeirra vorsýningum og undirbúa öflugt leikár 2015-16. Gengið yrði til samninga varðandi sameiningu félaganna þannig að úr yrði ein rekstrareining. Félögin haldi þó sínum vörumerkjum (LA, SN og Hof)
Félagið sér því tækifæri í sameiningu við önnur menningarfélög á Akureyri. Þá hefur LA lagt fram útfærðar tillögur um það hvernig halda megi áfram að reka atvinnuleikhús á Akureyri á nýjum tímum. Í þeim tillögum er t.a.m gert ráð fyrir auknu uppeldishlutverki LA með eflingu leiklistarskóla, samvinnu við öll skólastig og öflugu unglingaleikhúsi auk þess sem félagið myndi framleiða tvö stærri verkefni á ári. Þannig yrði hægt að viðhalda þeim metnaði og þeirri verðskulduðu athygli sem framleiðsla leiklistar á Akureyri nýtur um þessar mundir.
Þar sem bæjarráð hefur hafnað þessum hugmyndum LA er ljóst að, að óbreyttu, verður ekki atvinnustarfsemi í Samkomuhúsinu næsta vetur og þar með ekki rekinn leiklistarskóli enda er sú starfsemi algjörlega háð starfsemi atvinnuleikhúss.
Leikfélag Akureyrar hefur ekki farið varhluta af stórauknu framboði á afþreyingu á Akureyri og sést það best á því að vinsælar og vel metnar sýningar ná ekki þeim áhorfendatölum sem sambærilegar sýningar náðu á árum áður.
Stjórnendum, starfsfólki og stjórn Leikfélagsins hefur þrátt fyrir aðþrengdann fjárhag tekist að halda úti starfsemi og setja upp sýningar sem náð hafa almennri hylli og hafa borið hróður félagsins víða. Allar kostnaðaráætlanir félagsins hafa staðist á undanförnum tveimur árum, en það sem er að sliga félagið er sá hali sem enn hvílir á rekstrinum eftir hinar fjárhagslegu hremmingar þess fyrir þremur árum síðan.
Stjórn Leikfélags Akureyrar