Fara í efni

Friðrik Ómar 30 ára

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Friðrik afkastað miklu í tónlistinni. Eftir hann liggja nær 200 hljóðritanir, 60 þúsund seldar plötur og óteljandi tónleikar víða um land. Á efnisskránni verður brot af því besta sem Friðrik hefur tekið sér fyrir hendur á liðnum árum. Einnig frumflytur hann nýtt efni. 

 Með Friðriki verður einvalalið hljóðfæraleikara undir stjórn Þóris Úlfarssonar.

Hljómsveit:
Halli Gulli - trommur
Róbert Þórhalls - bassi
Pétur Valgarð - gítar
Þórir Úlfarsson - hljómborð, raddir
Sigurður Flosason – blástur, slagverk
Valgarður Óli – Slagverk

Greta Salóme Stefánsdóttir - fiðla
Lára Sóley Jóhannsdóttir - fiðla
Valmar Väljaots - fiðla
Ásta Óskarsdóttir – fiðla

Heiða Ólafs - raddir
Erna Hrönn - raddir
Alma Rut - raddir

Gestasöngvarar:
Regína Ósk
Jógvan Hansen
Guðrún Gunnarsdóttir

Skemmst er frá því að segja að Friðrik fyllti Hof í þrígang þessa sömu helgi fyrir ári síðan þegar hann heiðraði minningu Vilhjálms Vilhálmssonar með glæsilegum tónleikum sem seint gleymast.

Um Friðrik Ómar:

Friðrik Ómar hafði þegar gefið út tvær sóló plötur þegar hann varð 18 ára og spilaði á sérstökum tónleikum fyrir forseta Íslands. Hann sigraði í ýmsum söngkeppnum í heimabæ sínum Dalvík og víðar um land. Árið 2003 flutti hann til Reykjavíkur þar sem hann fór beint í áheyrnarprufu fyrir söngleik og fékk hlutverk. Hann hefur tekið þátt í fimm vinsælum tónlistarsýningum á Broadway, unnið með mörgum af færustu hljóðfæraleikurum og söngvurum þjóðarinnar og verið í forsvari fyrir nokkrar hljómsveitir.

Ég skemmti mér plötuserían þar sem hann söng gömul íslensk lög ásamt Guðrúnu Gunnarsdóttur sló rækilega í gegn en allar útsetningar á þeim plötum voru í höndum Ólafs Gauks. Plöturnar náðu allar gullplötusölu.

Hann kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Innrásinni frá Mars árið 2006 og sama ár hlaut hann tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngvari ársins og fyrir plötu ársins.

 Þátttaka Friðriks í Söngvakeppni Sjónvarpsins vakti mikla athygli en árið 2006 söng hann lag sem lennti í þriðja sæti, Það sem verður eftir Hallgrím Óskarsson. Ári síðar mætti Friðrik aftur og flutti þá lagið Eldur eftir Grétar Örvarsson og Kristján Grétarsson. Lagið endaði í öðru sæti.

Friðrik söng síðan framlag Íslands ásamt Regínu Ósk (Eurobandið) í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 2008, “This is my life” og komst Ísland í fyrsta sinn áfram upp úr undankeppninni og endaði í 14 sæti af þeim 42. þjóðum sem tóku þátt.

Friðrik ferðaðist um landið haustið 2008 og hélt 17 einsöngstónleika.

Árið 2009 hóf Friðrik samstarf með Jógvan Hansen og gáfu þeir út plötuna VINALÖG sem varð mest selda platan á Íslandi sama ár.

Friðrik Ómar hefur verið einn aðalsöngvari í tónleikaröð Frostrósa um allt land sl. Þrjú ár. Í lok árs 2011 verður Friðrik búinn að syngja á 80 Frostrósartónleikum um allt land.

Á vordögum 2010 stóð Friðrik fyrir tónleikum sem haldnir voru í tilefni af 75 ára fæðingarafmæli Elvis Presley í Salnum í Kópavogi. Alls voru haldnir 16 tónleikar sem komu út á geisladisk og mynddisk fyrir jólin 2010.

Sumarið 2011 ferðaðist hann um landið ásamt Jógvan Hansen og héldu þeir 25 tónleika víðsvegar um landið og fluttu íslensk og færeysk dægurlög.

Friðrik hefur hljóðritað nær 200 lög sem komið hafa út á plötum og stjórnað upptökum á mörgum þeirra.


Til baka