Fara í efni

Frumflutningur leik- og tónverka aukist með tilkomu Menningarfélags Akureyrar

Ljómyndari: Auðunn Níelsson
Ljómyndari: Auðunn Níelsson

Menningarlíf á Akureyri hefur blómstrað síðastliðið ár og hluti af því blómlega lífi er tilkomið vegna Menningarfélags Akureyrar (MAk). Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningahúsið Hof komu öll sterk saman undir merkjum MAk að framleiðslu söngleiksins um Pílu Pínu, sem hlaut mikið lof og góða aðsókn. Félagið hóf samstarfsverkefni með Hörpu sem hefur gefið möguleika á tónleikahaldi og uppsetningu leiksýninga þar auk þess sem listamenn að sunnan hafa fengið aukin tækifæri til að setja upp viðburði á Akureyri.

 Sinfóníuhljómsveitin hefur fengið mun fleiri verkefni en áður. Hún hefur selt kvikmyndaframleiðendum tónlistarflutning og upptökur. Reglulega eru frumflutt ný  íslensk tónverk en þau voru þrjú á árinu 2016. Þetta allt hefur haft mikil og jákvæð áhrif á möguleika og starfsumhverfi atvinnumanna í tónlist á Norðurlandi.

Leikfélagið hefur að sama skapi boðið upp á sex ný íslensk leikverk og leggur metnað sinn í að efla leiklistarstarf á svæðinu og byggja undir fjölbreytt framboð á leikverkum auk þess að laða til sín fjölbreytt úrval gestasýninga bæði í Samkomuhúsið og Hof.

Almennt hefur gróskumikil menningarstarfsemi og framboð menningarviðburða á vegum MAk ómæld jákvæð áhrif á samkeppnishæfni Akureyrar og búsetuskilyrði á svæðinu.

 Menningarfélag Akureyrar – MAk tók yfir rekstur Leikfélags Akureyrar, Menningarfélagsins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands 1. janúar 2015 og hélt sinn annan aðalfund í gær, 18. október,  í Hofi á Akureyri.  Sigurður Kristinsson formaður fór þar yfir þá byrjunarörðugleika sem tekist hefur verið á við eftir sameininguna og þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið til að tryggja rekstur félagsins til frambúðar. Í máli hans kom fram að rekstrarárið 2015-2016 hafi einkennst af eftirtektarverðum og ánægjulegum árangri framleiðslusviðanna tveggja, þ.e. leiklistar- og tónlistarsviðs.

Þuríður Helga Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri MAk fór yfir helstu þætti starfsemi síðasta rekstrarárs en nokkrir vaxtarverkir voru á félaginu. Með samstilltu átaki starfsmanna og stjórnenda hefur tekist að koma rekstrinum í góðan farveg. Þá kynnti Þuríður ársreikninga félagsins. Þar kom fram að 14.5 mkr. halli var á rekstri síðasta starfsárs og að á núverandi starfsári lækki fjárframlög til tónlistarsviðs um 75% og til leiklistarsviðs um 58% miðað við fyrra starfsár. Þrátt fyrir þennan mikla niðurskurð  hefur tekist að setja saman fjölbreytta og kraftmikla dagskrá fyrir yfirstandandi rekstrarár þökk sé útsjónarsemi leikhússtjóra og tónlistarstjóra MAk.

 

 

Til baka