Frumsýning: Djákninn á Myrká - Sagan sem aldrei var sögð
Gamanverkið Djákninn á Myrká – Sagan sem aldrei var sögð verður frumsýnt í Samkomuhúsinu á fimmtudagskvöldið en verkið byggir á einni þekktustu draugasögu Íslandssögunnar.
Í Hörgárdal er kirkjustaðurinn Myrká. Sagt er að fyrr á öldum hafi þar búið ungur djákni er þjónaði kirkjunni. Hann átti vingott við unga stúlku, vinnukonu á prestssetrinu Bægisá í næsta dal. Hún hét Guðrún, en hvergi er getið um nafn djáknans. En hver var þessi djákni? Hverjir komu fleiri við sögu?
Í leikverkinu er sagan skoðuð frá ýmsum sjónarhornum, lesið á milli línanna og skáldað í eyðurnar. Leikstjóri er Agnes Wild, leikmynd og búningar eru í höndum Evu Björgu Harðardóttur, tónlist eftir Sigrúnu Harðardóttur.
Tveir leikarar eru í sýningunni, þau Birna Pétursdóttir og Jóhann Axel Ingólfsson. Þau skipta með sér öllum hlutverkum, sem eru um 20 talsins. Birna og Jóhann hafa hlotið mikið lof fyrir leik sinn í vetur hjá MAk í sýningunum Kabarett, Krúnk krúnk og dirrindí og Gallsteinar afa Gissa.
Sýningin er unnin með svokallaðri „samsköpunar“ aðferð (en. devised) en þar vinnur hópurinn allur saman að því að búa til leikritið frá grunni. Ýmsar aðferðir eru notaðar í sköpunarferlinu, m.a. spuni og rannsóknarvinna. Bæði leikarar og listrænir stjórnendur taka þátt í öllu ferlinu. Sagan er skoðuð út frá öllum mögulegum sjónarhornum, karakterar fæðast og stíll mótast. Í þessu tilfelli hefur hópurinn fundið ýmsar kómískar hliðar á sögunni svo úr varð sprenghlægilegur en jafnframt hrollvekjandi gamanleikur fyrir alla fjölskylduna.
Aðeins verða tvær sýningar. Miðasala er í fullum gangi. Sýningin er samstarfsverkefni leikhópsins Miðnættis og Leikfélags Akureyrar.