Uppselt á frumsýningu Núnó og Júníu
Gleðilega hátíð! Í dag frumsýnum við Núnó og Júníu á sviðinu í Hamraborg. Þetta er 322 sviðsetning Leikfélags Akureyrar og nú sem svo oft áður er það með fulltingi ungs fólks sem verkið og umgjörð þess glæðist lífi. Við erum svo lánssöm sem samfélag að eiga hér mikinn mannauð í ungu fólki sem af brennandi ástríðu skapar eitthvað svo fallegt og mikilvægt.
Verkið á sterkt erindi til fjölskyldna og ungs fólks. Við óskum þess að það verði til þess að gleðja og auka á kærleikann í heiminum.
Hugleiðing höfundar
Allir eiga rétt á mannlegri virðingu. Allir eiga rétt á að hafa rödd sem hlustað er á. Hver manneskja hefur mikið að gefa, fái hún stuðning og svigrúm til þess að blómstra í eigin skinni.
Við lifum á tímum þar sem við berum okkur stöðugt saman við hvort annað: Við og hinir. Við gerum sífellt meiri kröfur til okkar og ein afleiðing þess er að kvíði hefur aukist til muna. Í slíkum heimi verða alltaf til þeir sem skara framúr og þeir sem verða undir. Við hömpum fyrrnefnda hópnum, en sá síðarnefndi fær oft litla athygli og gleymist jafnvel. Af hverju þurfum við að vera í stöðugri samkeppni við hvort annað? Hvenær varð það glæpur að vera ekki fullkominn? Segir árangur okkar eitthvað til um hvert okkar mannlega virði er?
Við segjum NEI. Við erum öll jafn mikils virði og við eigum öll rétt á mannsæmandi lífi. Það er okkar von að raddir Núnó og Júníu verði kveikja að mikilvægu samtali, sem þarf að eiga sér stað.
Sigrún Huld Skúladóttir
Hægt að kaupa miða hér