Fyrsti leiklestur á And Björk, of course.. í Samkomuhúsinu í dag
Fyrsti leiklestur af And Björk, of course.. fór fram í Samkomuhúsinu í morgun! Verkið verður frumsýnt 23. febrúar.
And Björk, of course.. er eftir Akureyringinn Þorvald Þorsteinsson heitinn. Þorvaldur var myndlistarmaður og rithöfundur og einna þekktastur fyrir barnaverkið Skilaboðaskjóðan og bækurnar um Blíðfinn.
Leikstjóri And Björk, of course.. er Gréta Kristín Ómarsdóttir. Leikhópurinn samanstendur af Jóni Gnarr, Sverri Þór Sverrissyni (Sveppa), Eygló Hilmarsdóttur, Örnu Magneu Danks, Davíð Þór Katrínarsyni, Maríu Pálsdóttur og Maríu Hebu Þorkelsdóttur. Um leikmynd og búninga sér Brynja Björnsdóttir.
Eygló Hilmarsdóttir er mikill aðdáandi leikritsins And Björk, of course. „Leikritið hefur dvalið langdvölum á náttborðinu mínu í gegnum tíðina og ég hef flutt mónóloga úr verkinu í hinum ýmsu leikprufum, alltaf með góðum árángri, til dæmis þegar ég komst inn á leikarabraut LHÍ á sínum tíma. Þetta er því algjört draumaverkefni fyrir mig, alls ekki bara vegna þess að verkið er svo gott heldur líka vegna þeirra stórkostlegu leikara og listamanna sem munu koma að uppsetningunni. Ég bara get bókstaflega ekki beðið eftir að byrja að æfa þetta!“
Það sama má segja um Sveppa: „Það er ekkert nema tilhlökkun að koma til Akureyrar og vinna með góðu fólki, enda hefur það verið þannig í þau skipti sem ég kem þangað, hvort sem ég er að skemmta öðrum eða mér, þá er alltaf hrikalega gaman. Svo skilst mér að það sé alltaf gott veður fyrir norðan," segir Sverrir Þór.
Jón Gnarr tekur í sama streng: „Þetta er magnað leikverk og persónulega mér mjög að skapi þar sem það er svolítið svipað mínum eigin stíl sem leikskálds. Mér finnst þessi nálgun og stíll mjög fyndinn en líka mjög erfiður því það er verið að fjalla um alvarleg mál á kjánalegan hátt og það skapar einhver óþægindi sem mér finnst ofboðslega skemmtilegt,“ segir Jón Gnarr.
Gréta Kristín segist lengi hafa átt draum um að setja upp sýningu í Samkomuhúsinu. „ Mér finnst magnað að sá draumur sé að rætast, og jafnframt þýðingarmikið að þetta skuli vera mitt fyrsta verk eftir krefjandi leikstjórnarnám í Finnlandi. Svo er ekki síður spennandi að fá að vinna með þetta eldfima verk Þorvaldar en hans höfundaverk hefur alltaf átt stóran hluta af hjarta mínu og sýn hans á listina og manneskjuna verið mér mikill innblástur í að móta eigin aðferðir og hugmyndir um leikhúsmiðilinn,“ segir Gréta Kristín.
Eins og áður segir verður And Björk, of course.. frumsýnt í Samkomuhúsinu 23. febrúar. Miðasala á mak.is