Fara í efni

Rekstur Hofs gengur vel

Rekstur Hofs hefur gengið vel frá upphafi. Nýliðið starfsár var þar engin undantekning en líkt og fyrri ár skilar Hof rekstrarafgangi. Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hofs, segir ánægjulegt að sjá hækkandi hlutfall sjálfsaflafjár og stöðugleika í rekstrinum. „Þetta er árangur metnaðarfullra og agaðra starfsmanna Hofs sem hafa fagmennsku og nákvæmni að leiðarljósi á öllum sviðum starfseminnar. Það skilar þessari niðurstöðu.“

Gestum fjölgar um fjórðung milli ára

Gestum Hofs hefur fjölgað jafnt og þétt frá því húsið var opnað og fjölgar enn. Fyrstu níu mánuði ársins lögðu tæplega 227.000 manns leið sína í Hof, fjórðungi fleiri en fyrstu níu mánuði síðasta árs og um miðjan október voru gestirnir orðnir fleiri en allt árið í fyrra.

Nokkrir mánuðir skera sig úr. Í júlí síðastliðnum komu til að mynda 42.000 manns í Hof, fleiri en nokkru sinni fyrr. Boðið var upp á fleiri viðburði í Hofi í sumar en undanfarin ár en tíðar komur skemmtiferðaskipa til bæjarins skýra einnig þessa miklu fjölgun því ferðamenn streymdu í Hof til að leita sér upplýsinga í upplýsingamiðstöð ferðamanna og eins til að skoða húsið sem er orðið eitt helsta kennileiti Akureyrar. 

„Það er auðvitað einstaklega ánægjulegt að sjá þessa miklu fjölgun á milli ára. Hof hefur fest sig í sessi og það er ljóst að dagskráin í Hofi er vel til þess fallin að laða að gesti á öllum aldri, með ólík áhugasvið. Nýliðin helgi var gott dæmi um þetta og það má segja að helgin endurspegli í rauninni það sem við í Hofi viljum standa fyrir: fjölbreytileika, metnað og gleði,“ segir Ingibjörg en rúmlega 4000 manns heimsóttu Hof um helgina.  Á föstudeginum voru tvær sýningar á einleiknum Kenneth Mána í samstarfi við Borgarleikhúsið, ÁLKA, félag áhugaljósmyndara á Akureyri, opnaði ljósmyndasýningu í húsinu á laugardag og hljómsveitin Mannakorn hélt upp á fjörutíu ára afmæli sitt með tvennum vel heppnuðum tónleikum í Hamraborg. Tónlistarfólk framtíðarinnar lét einnig til sín taka því um helgina fór fram fjölmennt strengjasveitamót í Hofi sem lauk með tónleikum í Hamraborg á sunnudag. Þar komu saman hátt í 300 tónlistarnemendur af öllu landinu.

Breytingar framundan

Í sumar var stofnað nýtt félag, Menningarfélag Akureyrar, sem tekur við rekstri Hofs, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Leikfélags Akureyrar. Hof verður rekið með óbreyttu sniði fram að áramótum en þá er gert ráð fyrir að nýja félagið taki við rekstrinum.

„Það eru breytingar framundan og í þeim felast mikil tækifæri,“ segir Ingibjörg. „Mikilvægt er að sú þekking og reynsla sem byggst hefur upp á síðustu árum tapist ekki og að áfram verði hægt að þróa starfsemi Hofs með þeim jákvæða hætti sem verið hefur. Við höfum á síðustu árum séð okkar bjartsýnustu spár rætast, bæði hvað varðar gestafjölda, rekstur og jákvæðni fólks í garð starfseminnar. Þau verðmæti sem felast í sterkri ímynd eru ómetanleg. Um þetta þarf að standa vörð áfram og tryggja að Hof iði af lífi allan ársins hring.“ 


Til baka