Gönguferðir um íslenska náttúru urðu að málverkum
Rebekka Kühnis flutti árið 2015 til Akureyrar þar sem hún hefur búið og starfað síðan. Hún fæddist árið 1976 í Windisch í Sviss og stundaði þar nám. Hún lauk meistaragráðu í list- og kennslufræði við Hochschule der Künste í Bern.
Þegar Rebekka fór að skoða landið fótgangandi í gegnum margar gönguferðir rötuðu hughrifin og skynjunin sem hún upplifði smám saman inn í list hennar, þar til Íslenskt landslag var orðið aðalviðfangsefni hennar.
Hún segir sjálf að hún hafi alla tíð haft listræna þörf fyrir að leysa upp umhverfi sitt eða í það minnsta að umbreyta því í eitthvað loftkenndara og óljósara. Hún segist upplifa íslenska náttúru sem ósnortna og ekki eins skilgreinda og afmarkaða og náttúruna í heimalandi sínu. -"Það er eins og allt sé kvikt og breytilegt og að ég sé hluti þess alls. Að baki er einnig grundvallarmeðvitund um stöðuga breytingu alls. Mér hugnast léttleikinn í þessari hugsun.“
Rebekka opnar sýningu sína "Hverfult" í Hofi, föstudaginn 18. október kl. 17. Þar sýnir hún ný málverk af einstakri túlkun sinni á íslenskri náttúru auk nokkurra teikninga frá fyrri árum.