Gott samstarf við Norðurorku
Norðurorka hf. og Menningarfélagið Hof undirrituðu samstarfssamning síðastliðinn sunnudag. Undirritunin fór fram að loknum útvarpsþættinum vinsæla „Gestir út um allt“ sem sendur var út í beinni útsendingu á Rás 2 í sextánda sinn af sviðinu í Hamraborg. Um 600 áhorfendur voru í salnum að þessu sinni, en Norðurorka er einn af bakhjörlum þáttarins.
Stjórn Norðurorku hf. samþykkti nýverið að halda áfram samstarfi við Menningarhúsið Hof og framlengja núverandi bakhjarlasamning út árið 2013.
Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku segir það hafa verið einkar ánægjulegt að fylgjast með starfsemi Hofs á þessum tveimur árum sem eru liðin frá opnun hússins. „Á sama hátt og við hjá Norðurorku leggjum áherslu á gæði og hagkvæma þjónustu hefur starfsfólkið í Hofi sýnt fram á að þar er unnið metnaðarfullt starf sem skilar árangri og það er okkur mikill heiður að fá að taka þátt í þessu starfi.“
„Við erum einstaklega ánægð með áframhaldandi samstarf við Norðurorku. Það skiptir Menningarhúsið Hof gríðarlega miklu máli að geta staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum og að geta boðið upp á opna viðburði í Hofi fyrir Akureyringa og aðra gesti. Hof er menningarhús allra og með stuðningi Norðurorku tekst okkur að halda úti metnaðarfullum viðburðum gestum að kostnaðarlausu“ sagði Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Hofs við undirritun samningsins.
Í samningnum fellst að Norðurorka veitir Menningarhúsinu Hofi fjárstyrk og skal honum einkum varið til þess að styðja við opna viðburði í Hofi sem gestir hafa aðgang að án endurgjalds. Má þar nefna auk Gesta út um allt, Barnamorgna sem haldnir verða fjórum sinnum í vetur, Kórahátíð þar sem yfir 500 kórsöngvarar af öllu Norðurlandi koma saman og heimsókn eldri borgara í Hof.