Fara í efni

Handbendi Brúðuleikhús frumsýnir hjá Leikfélagi Akureyrar

Eru tröll hrekkjótt?

Laugardaginn 11. febrúar verður frumsýnd ný sýning fyrir börn í Samkomuhúsinu. Sýningin heitir Tröll og er eftir Handbendi - Brúðuleikhús.

Það hefur gengið á ýmsu í æfingarferlinu; bílar bila, verkfæri týnast, og húsgögn færast til. Tröllin segjast samt alltaf vera saklaus, en við erum ekki viss.

Brúðuverkið Tröll fjallar um komu mannanna til klettaeyju; einhversstaðar þar sem vindurinn hvín, veturnir eru dimmir, og norðurljósin loga.  Mennirnir halda að þeir hafi fundið óbyggt land þar sem þeir geti komið sér fyrir, en eftir því sem tíminn líður fer þeim að finnast að svo sé ekki, að kannski séu þeir ekki einir þarna.

Með mönnunum í för er hugrökk stúlka. Hún klífur fjöllin til að skoða sig um, eltir fugla, og hoppar yfir gljúfur. Í einni svaðilförinni rekst hún á aldeilis óvænta óvætt - tröllið Truntum Runtum.

Þrátt fyrir það hve ólík þau eru, stúlkan og tröllið, þá tekst á með þeim djúpstæð vinátta. Þau verða svo góðir vinir að þegar að hin tröllin - sem eru orðin langþreytt á stöðugum klukknahljóm kirknanna sem mennirnir byggja, á endalausum húsbyggingum þeirra, og jarmandi sauðfé út um allt - ákveða að grípa til róttækra aðgerða til að losa sig við mennina fyrir fullt og allt, þá grípur Truntum Runtum inn í,  til að vernda litlu vinkonuna sína. Þrátt fyrir það að hann hætti á það að verða sjálfur að steini.

 

Tröll er hugljúf og angurvær sýning, sem hentar börnum 3ja ára og eldri.

 

Til baka