Hannes og Smári í Samkomuhúsinu
Þann 18. nóvember sýna Leikfélag Akureyrar og Borgarleikhúsið leikritið Hannes og Smári í Samkomuhúsinu. Leikritið, sem er samstarfverkefni LA og Borgarleikhússsins, var frumsýnt þann 7. október á Litla sviði Borgarleikhússins. Viðtökur áhorfenda hafa verið frábærar og miðarnir rokið út en sýningin hefur fengið afar góða dóma. Dagný Kristjánsdóttir, gagnrýnandi, Hugrásar - Vefrits Hugvísindasviðs HÍ segir m.a : "Skemmst er frá að segja að áhorfendur grétu af hlátri og ég hef enga trú á öðru en að þessi sýning verði ákaflega vinsæl”. Guðrún Baldursdóttir, gagnrýnandi Víðsjár sagði "Húmorinn er alls ráðandi - skemmtileg kvöldstund fyrir áhorfendur." og kollegi hennar Silja Aðalsteinsdóttir, gagnrýnandi TMM, sagði m.a. "Þetta er hressandi skemmtun."
Það eru leikkonurnar Halldóra Geirharðsdóttir og Ólafía Hrönn Jónsdóttir sem leika titilhlutverkin og eru höfundar verksins. Auk þeirra leika Elma Stefanía Ágústsdóttir og Kolbeinn Orfeus Eiríksson í sýningunni. Leikstjóri og meðhöfundur er Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri LA.
Hannes og Smári verða tvær helgar í Samkomuhúsinu í nóvember. Þeir lofa „eldfjörugri kvöldstund með leiklist, ljóðum, bardagalist og frumsaminni, óútgefinni tónlist“ svo vitnað sé í þá sjálfa. Félagarnir fara, að eigin sögn, með áhorfendur í „listrænan rússíbana, segja sögur um uppruna sinn, líf og áhrifavalda - þetta eru leiftrandi sögur, dramatískar og ágengar en um leið fyndnar.“
Í tengslum við sýninguna gefa þeir Hannes og Smári út splunkunýjan geisladisk sem ber nafnið „Kíldu mig kaldan“ og verður til sölu í forsal Samkomuhússins á 2.200 krónur.
Sýningarnar eru föstudaginn 18.nóvember, laugardaginn 19.nóvember, föstudaginn 25. nóvember og laugardaginn 26. nóvember kl 20. Tryggðu þér miða á mak.is
Úr gagnrýni:
„Áhorfendur grétu af hlátri" DK. Hugrás
„Ólafía og Halldóra eru eins og fiskar í vatni í túlkun sinni á Hannesi og Smára" SBH. Mbl
„Ólafía Hrönn og Halldóra eru báðar framúrskarandi leikarar" DK. Hugras
„Miklar hæfileikakonur sem leika á als oddi" SJ. Fréttablaðið.
„Bráðfyndin atriði" SJ. Fréttablaðið.
„Drepfyndin" GB. Víðsjá