Harpan heiðruð í Hofi
19.02.2025
Saga hörpunnar nær langt aftur í aldir eða allt að vöggu siðmenningar, til Mesópótamíu. Það má sjá teikningar í grafhýsum forn-egypta af hörpum og má því áætla að þetta hljóðfæri hafi spilað stórt hlutverk í lífi manneskjunnar í allavega sex þúsund ár.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands varð 30 ára árið 2023 og í tilefni af afmælinu varð Menningarfélagi Akureyrar og Tónlistarskóla Akureyrar færð fjármagn til kaupa á hörpu að gjöf frá Menningar- og viðskiptaráðuneytinu, Akureyrarbæ og KEA.
Sunnudaginn 23. mars verður þetta merkilega hljóðfæri heiðrað í Hofi þegar Elísabet Waage mun spila nokkur stórbrotin verk í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og fræða okkur í tali og tónum um sögu hörpunnar.