Hátíðartónleikar Sveins Dúu
Jón Svavar Jósefsson barítón mun koma fram á tónleikunum og syngja, meðal annars syngja þeir félagar Perlukafaradúettinn margfræga.
Sérstakur heiðursgestasöngvari verður enginn annar en Óskar Pétursson tenór. Það er hinn ungi og bráðefnilegi Hjörtur Ingvi Jóhannsson sem mun sjá um píanóleik. En Sveinn og Hjörtur eru að undirbúa upptökur á geisladisk sem koma mun út í haust.
Á efnisskránni verða klassísk Íslensk sönglög í nýjum og gömlum búningum, Íslenskir og erlendir dúettar, þýsk ljóðalög úr "Malarastúlkunni fögru" eftir Schubert. Þá verða einnig fluttar aríurnar Dies bildniss úr Töfraflautunni eftir Mozart, Che gelida manina úr La bohème eftir Puccini og Aría "Ítalska söngvarans" úr Rósariddaranum eftir R Strauss.
Um flytjendur:
Sveinn Dúa Hjörleifsson tenór og Akureyringur hóf söngnám sitt við söngskóla Sigurðar Demetz í Reykjavík.og síðar við Óperudeild Universität für Musik und darstellende Kunst í Vínarborg.
Á óperusviðinu hefur Sveinn sungið Ferrando úr “Cosi fan tutte” í óperustúdíói Íslensku Óperunnar og einnig í Hallarleikhúsi Schönbrunn. Þá hefur hann sungið Lenski úr “Eugen Onegin”, Don Ottavio úr “Don Giovanni”, Manninn með asnann úr “Die kluge” eftir Carl Orff. Unglinginn í Das Paradies und Die Peri” eftir Schumann. Itulbo úr “Il pirata” í Basel. Og nýlega hlutverk Taminos úr “Töfraflautunni” með Sinfóníu-hljómsveit Íslands í Háskólabíói. Sveinn hefur sungið fjölmarga tónleika, einn og með fleirum víða um land og í Evrópu, meðal annars með Karlakór Reykjavíkur heima og erlendis. En þar hóf Sveinn feril sinn sem einsöngvari. Hann hefur sungið fjölmargar messur í Austurríki undanfarin ár, bæði á tónleikum og í athöfnum. þar fer mest fyrir messum eftir Joseph Haydn en einnig verk eftir Mozart og Schubert. Hann söng t.d. Schubert messu í f-dúr í Musikverein í mars síðastliðinn með Wiener Akademie.
Næstu verkefni eru meðal annara tenór sólóparturinn úr 9. sinfónía Beethovens þann 13. maí á opnunartónleikum Hörpu í Reykjavík, afmælis-tónleikar Karlakórs Reykjavíkur þann 22. maí í Reykjavík. Don Ottavio úr Don Giovanni í styttri uppfærslu í Vínarborg í júlí. Í desember mun hann svo fara til Linz í Austurríki þar sem hann mun syngja hlutverk Ferrandos við Óperuhúsið þar í borg.
Jón Svavar Jósefsson, baritón útskrifaðist frá óperudeild Universität für Musik und darstellende Kunst Wien 2007. Hann hefur sótt fjölda námskeiða í söng og sviðslistum á Íslandi, Belgíu, Austurríki og Akureyri. Jón hefur haldið marga einsöngstónleika og komið víða fram, á Íslandi sem og annars staðar. Vorið 2008 söng Jón Svavar hlutverk Gulglielmos í óperunni Cosí fan tutte eftir W. A. Mozart sem flutt var í Íslensku óperunni. Einnig söng Jón hlutverk Ábótans úr Carmina Burana eftir Carl Orff með Sinfóníuhljómsveit Íslands í febrúar 2010 og hlutverk Papagenos á sýningu Sinfóníuhljómsveitarinnar fyrir skólabörn. Jón Svavar vinnur í leikskóla, járnar hross og les inn á teiknimyndir í hlutastörfum á móti söngnum.
Óskar Pétursson er óþarfi að kynna af því hann þekkja allir, hann hefur fyrir löngu sungið sig inn í vitund þjóðarinnar með ýmsum hætti.
Hjörtur Ingvi Jóhannsson píanóleikari er fæddur 1987. Hann byrjaði snemma að leggja stund á tónlist og útskrifaðist af klassískri braut tónlistarskóla FÍH í maí 2010, en þar hafði hann stundað nám í klassískum- og jazzpíanóleik. Hjörtur Ingvi er hljómborðsleikari hljómsveitarinnar Hjaltalín, sem hefur gefið út 2 breiðskífur og hlaut m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötu ársins 2009. Hann hefur komið fram með Hjaltalín víðsvegar um Evrópu og innanlands. Hjörtur hefur einnig komið fram sem píanóleikari, bæði sem einleikari, undirleikari hjá söngvurum og sem meðlimur í hinum ýmsu hljómsveitum.
Vinsamlegast athugið að það eru ónúmeruð sæti á tónleikana.
Miðaverð: 2.000 kr.