Hátt í 500 ráðstefnugestir í Hofi
Hátt í 500 ráðstefnugestir og sýnendur komu saman síðustu tvo daga í Hofi á tveggja daga Samorkuþingi.
Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri Menningarhússins Hofs, segir skemmtilegt að hafa loksins getað haldið jafn stóran og fjölbreyttan viðburð í Hofi eins og Samorkuþingið er, en viðburðinn átti að halda 2020. „Það er gaman að sjá á ný hvernig húsið þjónar tilgangi sínum sem ráðstefnuhús. Við dustuðum rykið af reynslu og kunnáttu hér innanhús sem lá í dvala á tímum heimsfaraldurs og nýttum þær tæknilausnir sem urðu algengari á þeim tíma til viðbótar við það sem fyrir var,“ segir Kristín Sóley.
Hún segir lífið að komast í samt form eftir heimsfaraldur.
„Já, það er heldur betur farið að glaðna til á þessum markaði aftur og fólk svo innilega til í að koma margt saman í einu á ný. Reynslan hefur meira að segja verið sú að flestir fundir í húsinu um þessar mundir bólgni frekar út, það er afar ánægjulegt.“
Skipuleggjendur ráðstefna og aðrir viðburðahaldarar sem vilja frekari upplýsingar um aðstöðuna í Hofi er bent á að senda Kristínu Sóleyju tölvupóst á kristinsoley@mak.is.