Heim í fjörðinn með Sigga Þengils tenór
Þeir ætla að flytja lög úr öllum áttum en á efnisskránni ættu að vera lög við allra hæfi.
Þar má nefna þekkt lög eftir Sigfús Halldórsson, Sigvalda Kaldalóns, söngleikjalög, léttir ítalskir smellir og
frægar tenóraríur.
Vinsamlegast athugið að það eru ónúmeruð sæti á tónleikana.
Sigurður Þengilsson tenór er fæddur á Neskaupsstað en ólst upp á Akureyri, vélfræðingur, vélvirki og framhaldsskólakennari að mennt. Árið 2000 hóf hann söngnám í Tónlistarskólanum á Akranesi undir handleiðslu Sigríðar Jónsdóttur og síðan Sigríðar Elliðadóttur. Þaðan lá leiðin í Söngskólann í Reykjavík þar sem Guðmundur Jónsson, Ingveldur Ýr Jónsdóttir, Ólafur Vignir Albertsson, Alexander Ashworth, Julian Hewlett og David Bartleet hafa verið kennarar hans. Sigurður lauk framhaldsprófi frá Söngskólanum í Reykjavík 2006 og burtfararprófi frá Söngskóla Sigurðar Demetz vorið 2008.
Hann tók þátt í uppsetningu á Töfraflautunni og Show – business hjá nemendaóperu Söngskólans í Reykjavík og Óperuperlum með óperudeild Söngskóla Sigurðar Demetz 2008. Rigoletto með Óperu Skagafjarðar þar sem hann fór með hlutverk hertogans Duca 2009.
Einnig hefur hann sótt námskeið sem þátttakandi og áheyrandi hjá Lise Haavik í Complete Vocal Tecnique í Danmörku og masterclass hjá Andrei Orlowitz.
Sigurður hefur sótt fjöldan allan af sumarnámskeiðum í t.d. leiklist, túlkun og söng, auk söngnámskeiðs í Flórens árin 2006 og 2007 hjá Julian Rodescu, Benitu Valente, Laura Brooks Rice, Marco Balderi og Cristopher Arneson. Þar að auki hefur Sigurður verið áhorfandi á fjölda söngnámskeiða og má þar nefna hjá Kristni Sigmundssyni, Kiri Te Kanava, David Jones, Catherine Sadoline og David Bartleet. Sigurður hefur tekið þátt í kórstarfi og komið fram með ýmsum kórum sem einsöngvari.
Sigurður fór sem einsöngvari með Samkór Reykjavíkur til Ítalíu og Slóveníu vorið 2008. Karlakór Kópavogs hefur notið krafta hans tvo liðna vetur og hefur hann hjálpað til með raddþjálfun kórsins. Veturinn 2009-2010 sótti hann einkatíma hjá Kristjáni Jóhannssyni og tók þátt í masterklass og tónleikum.