Hljómur Eistlands, uppistand og skólalúðrasveitir
Það verður líf og fjör í Menningarhúsinu Hofi um helgina. Í kvöld, föstudagskvöld, verða tvær sýningar með uppistandshópnum Mið-Íslandi. Þeir Ari Eldjárn, Bergur Ebbi, Björn Bragi, Dóri DNA og Jóhann Alfreð hafa selt hátt í 80 þúsund miða á uppistand sitt og nú er komið að Norðlendingum að njóta.
Um helgina er einnig landsmót elstu nemenda Samtaka íslenskra skólalúðrasveita þar sem 250 krakkar munu koma saman. Á mótinu munu nemendur geta sótt ýmis námskeið eða smiðjur, allt frá ukulele námskeiði til stórrar blásarasveitar. Á sunnudaginn munu þeir svo flytja afrakstur vinnu sinnar með tónleikum í Hamraborg. Enginn aðgangseyrir er á tónleikana og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Á sunnudaginn fara einnig fram tónleikarnir Hljómur Eistlands sem eru hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands í tilefni að 100 ára afmæli lýðveldis Eistlands. Það er skemmtileg tilviljun að smáþjóðirnar, og vinaþjóðirnar Ísland og Eistland, fagna báðar 100 ára lýðveldisafmæli sínu í ár. Hinn virti hljómsveitarstjóri Erki Pehk frá Eistlandi mun stjórna Sinfóníuhljómsveit Norðurlands þegar flutt verða m.a meistaraverkin Spiegel in Spiegel eftir Arvo Pärt, The Girl and the Dragon eftir Risto Laur og „Kreegi Vihik“ (Kreek’s Notebook) eftir Tõnu Kõrvits fyrir kammerkór og strengjasveit.