Breyttir tímar kalla á nýjar nálganir
Í ljósi aðstæðna fer starfsár Menningarfélags Akureyrar óvenjulega af stað. Við tókum þá ákvörðun að gefa ekki út dagskrárbækling fyrir starfsárið líkt og undanfarin ár og í stað áskriftarkorta verða sérsniðin tilboð fyrir hvern og einn viðburð.
Við nýtum tækifærið til að hugsa hlutina upp á nýtt og aðlögum starfsemi Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands að breyttum aðstæðum hverju sinni.
Við leggjum af stað með óhefðbundna þátttökuverkið EYJU núna um helgina í samstarfi við Steinunni Knútsdóttur Önnudóttur. Sýningin fer fram í ferjunni til Hríseyjar og úti í eyju. Fáir þátttakendur komast að og gætt verður ýtrustu sóttvarna. Við biðjum gesti um að koma með eigin grímur en einnig verða grímur á staðnum.
Tónleikar Kristins Sigmundssonar stórsöngvara, Vetrarferðin, sem fara fram í Hofi 6. september, flytjast yfir í Hamraborg. Fjöldi miða takmarkast við 100 manns í salnum og verða tveir metrar á milli óskyldra gesta. Sætin eru ónúmerið á þessa tónleika og mun starfsfólk hússins vísa fólki til sætis.
Sviðslistaverkið TÆRING er önnur óhefðbundin sýning sem fram fer á HÆLINU setri um sögu berklanna. Sýningin er samstarfssýning við Hælið og er áætluð frumsýning 19. september. Einungis tíu áhorfendur komast á hverja sýningu, grímum verður útdeilt og öllum reglum um sóttvarnir framfylgt.
Stórar og viðamiklar leiksýningar í Samkomuhúsinu bíða betri tíma. Það sama á við um stóra tónleika Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. En þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Sprotaverkefni sveitarinnar, SinfoniaNord, sem snýst um upptökur á sinfónískri tónlist fyrir afþreyingariðnaðinn, hefur vaxið fiskur um hrygg og komið í staðinn fyrir tónleikahald hvað tekjur listafólksins varðar.
Við setjum öryggi gesta í forgang og förum í einu og öllu eftir leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda. Við þökkum ykkur hjartanlega fyrir skilninginn á þessum óvenjulegu tímum og hlökkum til að sjá ykkur.