Fara í efni

Iceland Airwaves í Hofi

Í dag hefst Iceland Airwaves tónlistarhátíðin á Akureyri og er það í fyrsta sinn sem hún teygir anga sína í höfuðstað Norðurlands. Tónlistarfólkið sem treður upp í Hamraborg í kvöld er mætt á staðinn og mikið umleikis í húsinu. Ásgeir Trausti, Mammút, akureyrska hljómsveitin 200.000 Naglbítar og Hildur troða upp í kvöld kl. 20. Á morgun, föstudag, eru það Emiliana Torrini og The Colorist, Vök, JFDR og Svarfdælingurinn og tónlistarkonan Ösp Eldjárn sem stíga á stokk og flytja sína tónlist fyrir fullum sal.

Það er þétt dagskrá þessa tvo daga í miðbænum en hátíðin fer einnig fram á Græna hattinum og Pósthúsbarnum. Það er því óhætt að segja að tónlistarhátiðin í heild býður uppá litríkt og hljómmikið eyrnakonfekt sem tónlistarunnendur ættu ekki að láta fram hjá sér fara.

Þeir sem þegar hafa tryggt sér aðgönguarmband geta sótt það í Hof frá kl. 14 í dag til miðnættis, sem og föstudag frá kl. 14 til miðnættis í sérstaka miðasölu Iceland Airwaves. Áhugasömum sem vilja tryggja sér armband á spennandi dagskrá hátíðarinnar er bent á að það er enn hægt að kaupa miða með því að smella hér  og í miðsölu IA í Hofi frá kl. 14 í dag. 

 

 

Til baka