Íslenski dansflokkurinn kemur í Hof - fjölskyldusýning og frítt dansnámskeið
Fjölskyldusýning í Hofi: Á dagskránni verða tvö ólík verk sem bæði höfða til breiðs áhorfendahóps.
Fyrra verkið sem sýnt verður ber nafnið Groβstadtsafari og er eftir Norðmanninn Jo Strömgren en verk eftir hann hafa verið sýnd í yfir 50 löndum. Verkið var frumsýnt þann 4. mars síðastliðinn og fékk frábærar viðtökur hjá áhorfendum sem og gagnrýnendum. Groβstadtsafari fjallar um þá streitu og öngþveiti sem byggist upp í fjölmenni borgarlífsins. Þetta er kröftugt dansverk sem gerir miklar tæknilegar kröfur til dansaranna. Bryndís Schram á pressan.is sagði meðal annars í sínum dómi: „Verkið var geggjað flott og vitnaði enn um samstillingu og tæknilega yfirburði flokksins“ og bætti svo við „flott show –svolítið í anda söngleikjanna - en þó öllu dramatískara“.
Seinna verkið er af allt öðrum toga. Það heitir Endastöð og er eftir Svíann Alexander Ekman en hann er einn af virtustu og vinsælustu danshöfundunum í Evrópu í dag. Íslenski dansflokkurinn frumsýndi Endastöð árið 2008 og hefur sýnt verkið víða um heim. Í Endastöð fer saman látbragð og dans er við fylgjumst með hópi gamalmenna í leit þeirra að æskunni. Verkið er leikrænt, létt, fyndið og rómantískt. Gagnrýnandi Morgunblaðsins sagði um verkið: „Endastöð er staðfastlega fyndið út í gegn“ og franskur gagnrýnandi taldi lokaatriði verksins vera „gulls ígildi“.
Miðasala er í síma 450 1000 eða midasala@menningarhus.is.
Dansnámskeið
Íslenski dansflokkurinn mun einnig bjóða upp á frítt dansnámskeið fyrir ungt fólk á Akureyri og nágrenni. Krökkum í 8. til 10. bekk verður boðið á stutt og skemmtilegt námskeið þar sem þeim gefst tækifæri til að kynnast nútímadansi frá eigin hendi. Námskeiðið er hannað þannig að allir geta tekið þátt og eru krakkar sem ekki hafa stundað dans áður sérstaklega hvattir til að koma og spreyta sig.
Námskeiðið verður haldið föstudaginn 1. apríl í Hofi og er kennt af dönsurum úr Íslenska dansflokknum. Þeir sem hafa áhuga að taka þátt sendi tölvupóst með nafni og aldri á id@id.is. Nánari upplýsingar má finna á vef dansflokksins, http://www.id.is/ eða í síma 568 8000.