Snorri Sigfús tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna
Konsert nr. 2 fyrir hljómsveit eftir Snorra Sigfús Birgisson sem var frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í Hofi þann 24. Nóvember síðastliðinn hefur verið tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2025 sem Tónverk ársins í flokki sígildrar og samtímatónlistar.
Konsert nr. 2 fyrir hljómsveit var saminn á árunum 2020 til 2024 fyrir Sinfóníuhljómsveit Norðurlands að beiðni hljómsveitarinnar. Rætur þess liggja víða og hafði Snorri meðal annars til hliðsjónar stemmu sem Þorbjörn Kristinsson (1918–2001) kvað en Þorbjörn var um árabil barnaskólakennari við Glerárskóla. Stemmuna kvað Þorbjörn við eftirfarandi vísu eftir bróður sinn, Hjörleif Kristinsson (1918–1992):
Dags er glæta þrotin þá
þokan vætir kinnar.
Skjóna fætur skripla á
skuggum næturinnar.
Tónlistarsjóður og Launasjóður tónskálda veittu styrki til verksins.
Snorri Sigfús Birgisson er fæddur 29. apríl 1954. Hann stundaði píanónám fyrst hjá
Gunnari Sigurgeirssyni en innritaðist síðan í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hann á píanó hjáHermínu S. Kristjánsson, Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni en lagði einnig stund á tónsmíðar hjáÞorkeli Sigurbjörnssyni. Hann lauk einleikaraprófi 1974. 1974-1975 stundaði hann framhaldsnám ípíanóleik hjá Barry Snyder við Eastman School of Music í Bandaríkjunum, 1975-76 tónsmíðanám í Osló hjá Finn Mortensen (enn fremur nám í raftónlist hjá Lasse Thoresen og “sonology” hjá Thoresen og Olav Anton Thommessen) og 1976-1978 lærði hann tónsmíðar hjá Ton de Leeuw í Amsterdam.
Snorri hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og stjórnandi síðan hannkom heim frá námi (1980). Hann hefur samið einleiksverk, kammertónlist, raftónlist, kórtónlist og sinfónísk verk. Hann er félagi í CAPUT hópnum.
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarfélag Akureyrar óska Snorra innilega til hamingju með tilnefningu.