Laugardagsmorgunn í leikhúsinu
Leikfélag Akureyrar býður upp á nýjan félagsviðburð; Laugardagsmorgunn í leikhúsinu. Fyrsti morguninn verður 23. nóvember kl. 11-12 í Borgarasal Samkomuhússins. Í tilefni þessa fyrsta morguns er hann öllum opinn endurgjaldslaust. Allir sem hafa dálæti á leikhúsi eru hvattir til þess að mæta.
Gestur Einar Jónasson og Sunna Borg mæta og skyggnast með okkur inn í sögu Leikfélagsins. Að þessu sinni verður fjallað um tvö verk, Leikritið Ævintýri á gönguför, sem á sérstakan stað í hjörtum leikhúsunnenda á Akureyri og á m.a. 45 ára leikafmæli á þessu ári, og söngleikinn My Fair Lady, sem fyrir 35 árum gekk á fjölum leikhússins fyrir fullu húsi trekk í trekk við góðar undirtektir.
Hægt er að skrá sig með því að senda póst á netfangið leikfelag@mak.is