Leikfélag Akureyrar - atvinnuleikhús í 40 ár
Haustið 1973 urðu tímamót í starfsemi Leikfélags Akureyrar þegar ráðnir voru átta leikarar í hlutastarf og félagið varð að atvinnuleikhúsi, hinu fyrsta með fast aðsetur utan höfuðborgarinnar. Þar með var náð merkum áfanga í íslensku leiklistarlífi og það er því með stoltum huga sem við kynnum leikárið 2013-2014, en það er einmitt helgað 40 ára afmæli atvinnuleikhúss á Akureyri. Og frumsýningar vetrarins eru ekki af verri endanum: SEK, nýtt og magnað leikverk eftir Hrafnhildi Hagalín verður frumsýnt í byrjun október, GULLNA HLIÐIÐ eftir Davíð Stefánsson – afmælissýning LA - lifnar við á fjölum Samkomuhússins í upphafi nýs árs, hið bráðfyndna og hjartnæma verk Amy Conroy, LÍSA OG LÍSA, verður frumsýnt í Rýminu um miðjan febrúar og SKÁLDIÐ GLEYMDA, glænýtt leikrit Árna Kristjánssonar um Davíð Stefánsson verður frumflutt í Davíðshúsi þann 1. mars 2014, á dánartíð skáldsins. Síðast en ekki síst verður frumsýnt nýtt barnaverk SKEMMTILEGT ER MYRKRIÐ eftir leikhóp LA.
Það er öflugur hópur listafólks sem starfar við leikhúsið í vetur. Leikararnir Aðalbjörg Árnadóttir og Hannes Óli Ágústsson eru leikhúsunnendum að góðu kunn og nú bætist leikarinn Hilmir Jensson í hópinn, einnig Ingibjörg Huld Haraldsdóttir leikstjóri. Þá er einkar ánægjulegt að LA skuli njóta krafta leikstjóranna Egils Heiðars Antons Pálssonar, Jóns Gunnars Þórðarsonar og Viðars Eggertssonar og væntum við mikils af innleggi þeirra í ár. Síðast en ekki síst er leikhúsinu mikill liðsauki í þeim Sögu Jónsdóttur, Sunnu Borg og Þráni Karlssyni sem fagna með okkur þessum merku tímamótum í sögu Leikfélags Akureyrar og stíga á svið í sýningum vetrarins.
Við bjóðum Akureyringum, Eyfirðingum, nærsveitamönnum – já og öllum landsmönnum – til leiks á 40 ára afmælinu. Góða skemmtun í leikhúsinu!
Ragnheiður Skúladóttir
Leikhússtjóri