Leikfélag Akureyrar býður til GRRRRRRLS danssmiðju
14.09.2017
Leikfélag Akureyrar býður til dansvinnusmiðju fyrir stelpur á aldrinum 12-16 ára, leiðbeinandi er Ásrún Magnúsdóttir, danshöfundur. Aðspurð segir Ásrún: “vinnusmiðjan er sprottin úr danssýningunni GRRRRRLS sem sló í gegn í Reykjavík síðasta vetur. Í sýningunni tók hópur unglingsstúlkna yfir sviðið og lét rödd sína heyrast og ljós sitt skína. Nú verður unnið með svipaðar aðferðir og voru notaðar í sýningunni.” En hvernig fer svona vinnusmiðja fram? “Við ætlum að dansa saman, syngja saman, tala saman, hlusta á tónlist saman og bara hanga saman.” svarar Ásrún og bætir við “við ætlum að reyna að svara spurningum einsog; Hvað þýðir samstaða fyrir hóp af stelpum á Akureyri í dag? Hvað þýðir það fyrir þessar stelpur að hafa eina sameinaða rödd? Hvað vilja þær segja? Hvaða merkingu hefur það fyrir þær að standa saman? Hvað þýðir það fyrir þær að vera saman, að standa upp fyrir hvorri annarri, að vera ein fyrir alla - allar fyrir eina.” Ásrún segir einnig að stelpunum verði gefið valdið þessa helgi og megi gera hvað sem þeim dettur í hug í samvinnu við hvor aðra og hana sjálfa. “Við munum m.a. búa til dansa og texta og spila okkar uppáhalds tónlist. “
Vinnusmiðjan endar svo á stuttu stefnumóti við áhorfendur þar sem þeim gefst tækifæri á því að heyra og hitta stelpurnar og sjá afrakstur smiðjunnar. Ásrún segir að við það að verða unglingur breytist margt, "við fáum vandamál, við verðum elskaðar og svo verðum við elskaðar aftur af einhverjum öðrum. Við fáum að vita hluti um hluti sem þú munt aldrei fá að vita, af því við erum unglingsstelpur og það er ekki eitthvað sem hver sem er getur sagt. Það erum bara við sem erum unglingsstelpur sem vitum hvað það þýðir.” Segir Ásrún og bætir við “Þú þarft ekki að kunna að dansa, ekki að kunna að syngja, ekki kunna að leika, bara að vilja vinna með öðrum stelpum á svipuðum aldri sem búa á svipuðum stað og þú.”
Vinnusmiðjan er án endurgjalds og er hluti af Borgarasviði LA 2017-2018. Leikfélag Akureyrar vill með Borgarasviðinu gefa borgurum Akureyrar tækifæri til að upplifa leikhúsið sem rými þar sem fólk hittist, hefur samskipti og tengist skapandi,þvert á aldur, kyn og félagslegan bakgrunn. Vinnusmiðjan er daganna 6. 7. og 8 október í Hofi og Samkomuhúsinu. Skráning á námskeiðið er hér á mak.is. Vinsamlegast athugið að námskeiðið takmarkast við 20 stúlkur.