Leikfélag Akureyrar í útrás
Leikfélag Akureyrar er í mikilli útrás þessa dagana en leikfélagið á bæði gestasýningar í Þjóðleikhúsinu og í Borgarleikhúsinu.
Í þjóðleikhúskjallaranum er sýningin Fullorðin sýnd þessa dagana. Sýningin gekk fyrir fullu húsi hér á Akureyri en er nú komin suður yfir heiðar og inn í Þjóðleikhúskjallarann. Verkið er sprenghlægilegur gamanleikur um það skelfilega hlutskipti okkar allra að verða fullorðin og misheppnaðar tilraunir okkar til að sannfæra aðra um að við séum það. Leikarar sýningarinnar eru Árni Beinteinn, Birna Pétursdóttir og Vilhjálmur B. Bragason. Miðasala er í fullum gangi á tix.is.
Verkið Hamingjudagar eftir Nóbelshöfundinn Samuel Beckett verður svo frumsýnt í Borgarleikhúsinu laugardagskvöldið 5. nóvember. Verkið, sem fjallar um takmarkalausan lífsvilja manneskjunnar og ódauðleika bjartsýninnar, þykir eitt skemmtilegasta leikrit Becketts sem lætur hér gamminn geisa með hrífandi húmor, visku og ólíkindi. Með hlutverk Vinní fer Edda Björg Eyjólfsdóttir en eiginmann hennar leikur Árni Pétur Guðjónsson. Leikstjóri er Harpa Arnardóttir. Miðasala er í fullum gangi á tix.is.