Léttblúsað Skuggatríó Sigga Flosa í Hofi
Hið léttblúsaða Skuggatríó Sigurðar Flosasonar heldur tónleika í Hofi fimmtudaginn 9. júní kl. 20.
Tónleikarnir eru þeir fyrstu í sumardagskrá Menningarfélags Akureyrar í samstarfi við Bistro 1862, sem framleiðir girnilegar krásir á hverjum degi í Hofi. Sigurður Flosason saxófónleikari, Þórir Baldursson Hammond orgelleikari og Einar Scheving trommuleikari eru Norðlendingum og gestum þeirra að góðu kunnir en tríóið mun án efa leika við hvern sinn fingur fyrir áheyrendur sína á þessum fyrstu tónleikum sumarsins. Á meðan tónleikum stendur geta gestir gætt sér á kræsingum þar sem Bistró 1862 mun þjóna til borðs með mat og drykk.
Menningarfélag Akureyrar og Bistró 1862 standa fyrir þremur sunnudagstónleikum í sumar auk þriggja tónleika á fimmtudögum. Fyrstu sunnudagstónleikarnir verða 19. júní á Bistro 1862 með finnsku - íslensku hljómsveitinni Grímsey. Þar er gítarleikarinn Matti Saarinen í fararbroddi en hljómsveitin spilar frumsamda tónlist.
Sumardagskrá Menningarfélags Akureyrar og Bistro 1862 sem einkennist af töfrandi tónum eru styrktir af Bílaleigu Akureyrar og Whale Watching Akureyri.