Líf og fjör í Samkomuhúsinu og Hofi
Árið byrjar heldur betur af krafti hjá Leikfélagi Akureyrar! Samkomuhúsið og Menningarhúsið Hofi iða af lífi því æfingar eru í fullum gangi í báðum húsum. Í Svarta kassanum í Hofi er verið að æfa barnaverkið Litla skrímslið og stóra skrímslið sem verður frumsýnt laugardaginn 13. janúar. Með hlutverk skrímslanna fara Margrét Sverrisdóttir og Hjalti Rúnar Jónsson en leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir.
Í Samkomuhúsinu standa yfir æfingar á verkinu And Björk, of course.. eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikarar eru Jón Gnarr, Sverrir Þór Sverrisson, Eygló Hilmarsdóttir, Arna Magnea Danks, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Leikstjóri er Greta Kristín Ómarsdóttir. Verkið verður frumsýnt 23. febrúar.
Miðasala á bæði verkin er á mak.is