Margmenni í Hofi um helgina
Líkt og vanalega var kátt á hjalla í Hofi um helgina en hátt í 2000 gestir heimsóttu menningarhúsið á hina ýmsu viðburði. Á föstudagskvöldinu hélt uppistandshópurinn Mið-Ísland uppi fjörinu með tveimur sýningum svo hlátrasköllin heyrðust út á götu.
Á sunnudaginn fór svo fram afar velheppnaðir hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands en uppselt var á tónleikana sem fram fóru í Hömrum. Tónleikarnir, Hljómur Eistlands, voru haldnir í tilefni að aldar afmæli lýðveldis Eistlands og voru verk nokkurra af þekktustu tónskáldum Eistlands flutt undir stjórn hins virta hljómsveitastjóra Erki Pehk.
Að sama skapi var vel mætt á landsmót elstu nemenda Samtaka íslenskra skólalúðrasveita sem fram fór í Hofi um helgina. Um 250 krakkar komu saman á mótinu auk þess sem fjöldi mætti á tónleika þeirra á sunnudeginum.