Eitthvað fyrir alla í október
Það verður af nægu að taka í húsum Menningarfélagsins í október!
Föstudaginn 14. október er komið að tónleikunum Eftirlætislög Örvars Kristjánssonar harmónikuleikara. Mikil eftirvænting er eftir viðburðinum og seldust miðarnir hratt upp.
Sunnudaginn 16. október kl. 16 heldur Tónlistarfélag Akureyrar tónleikana Bach og Beethoven. Ókeypis er fyrir börn og ungmenni innan við 18 ára.
Um kvöldið verður heimsþekkta verkið Sea Sick flutt í Samkomuhúsinu. Sea Sick fjallar um hlýnun sjávar og er flutt af verðlaunablaðamanninum Alanna Mitchell. Það er kanadíska sendiráðið sem kemur með verkið til Íslands.
Föstudaginn 21. október kl. 20:30 mun Helena Eyjólfsdóttir stíga á svið Hamraborgar í Hofi. Á tónleikunum, Manstu ekki vinur, flytur Helena, ásamt fjölda gestasöngvara, ógleymanlegar dægurlagaperlur.
Laugardagskvöldið 22. október er komið að Pálma Gunnars, Magga Eiríks og Ellen Kristjáns þegar stórbandið Mannakorn heldur tónleika í Hofi. Einstakur viðburður fyrir alla tónlistaraðdáendur.
Rúsínan í pylsuendanum eru svo tónleikarnir Bless í bili þar sem rappararnir Jóipé og Króli ganga til liðs við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Hljómsveitarstjórinn Þórður Magnússon hefur unnið með strákunum að sinfónískum útsetningum á vel völdum lögum þeirra og eitt er víst að útkoman verður einhver svakaleg B O B A.
Nú styttist í jólin og kokkarnir í Garúnu í Hofi eru farnir að bjóða upp á jólahlaðborð í aðventunni sem eru tilvalin fyrir starfsmann-, vina og fjölskylduhópa að skoða fyrir jólatónleikana. Sala á Heima um jólin er í algjörum algleymingi auk þess sem fljótlega bætast við tvennir tónleikar í aðventunni, Jólatónleikar Valdimars Guðmundssonar og tónleikar Bríetar.
Það verður því eitthvað fyrir alla í október. Miðasala á viðburðina er á www.mak.is