Fara í efni

Marta Nordal hættir sem leikhússtjóri

Marta Nordal hefur tekið ákvörðun um að hætta sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar og snúa sér að öðrum verkefnum.

Marta hefur starfað sem leikhússtjóri frá árinu 2018 og hefur á þeim tíma staðið fyrir uppsetningum á borð við Kabarett, Vorið vaknar, Chicago og Skugga svein, sem hún leikstýrði sjálf, auk barnaverkanna vinsælu um Benedikt búálf og Litla skrímslið og stóra skrímslið og nú síðast And Björk of course. Leikfélag Akureyrar hefur á hennar stjórnartíma hlotið fjölda tilnefninga og verðlauna til Grímunnar, þar má til að mynda nefna sjö tilnefningarnar sem söngleikirnir Chicago og Kabarett hlutu hvor.

„Þessi tími hefur verið hreint út sagt stórkostlegur, eiginlega ólýsanlegur og þar hefur hvergi borið skugga á þrátt fyrir ýmsar áskoranir. Það er ekki allt auðvelt sem er einhvers virði. En uppskeran er líka ríkuleg. Þegar draumur verður að veruleika og til verður sýning sem fólk elskar og nýtur þess að sækja, það er ólýsanleg tilfinning. Þetta þekkir allt leikhúsfólk. En lykillinn að velgengni er fólkið á bakvið verkefnin. Leikhús verður alltaf til í samvinnu og sameiginlegri sýn. Það sem stendur uppúr þegar ég lít tilbaka er mitt einstaka samstarfsfólk hjá MAK og það hæfileikaríka listafólk sem hefur komið að verkefnunum hjá okkur,“ segir Marta.

 

Það hefur verið sannkallaður heiður að starfa með Mörtu og við hjá Menningarfélaginu eigum svo sannarlega eftir að sakna hennar því hún er einstakur samstarfsfélagi. Hún skilur eftir sig stóra sigra í leikhúsinu og sá aðili sem tekur við af henni tekur við góðu búi og á góðum tíma,“ segir Eva Hrund framkvæmdastjóri

Marta hættir sem leikhússtjóri í maí næstkomandi en þá tekur hún við starfi sérfræðings í sviðslistum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu. Starfsfólk Menningarfélags Akureyrar þakkar Mörtu fyrir einstaklega gott og farsælt samstarf og óskar henni velfarnaðar í nýju starfi.

Til baka