Skapandi aflvaki til framtíðar
Eftirsóknarverður vettvangur þar sem draumar rætast
Öflug miðstöð skapandi greina hefur byggst upp með stofnun Menningarfélags Akureyrar sem skilar menningarlegum verðmætum til samfélagsins ásamt því að vera eftirsóknarverður vettvangur fyrir listviðburði, fundi og ráðstefnur af landinu öllu.
Í lok starfsársins kynnti Menningarfélagið afrakstur stefnumótunarvinnu sem starfsfólk félagsins og fulltrúar stjórna þeirra félaga sem það mynda tóku þátt í. Félögin eru: Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Leikfélag Akureyrar og Menningarfélagið Hof. Í stefnunni er megin áhersla lögð á eflingu atvinnustarfsemi í sviðslist og sinfónískri tónlist á Akureyri ásamt því að ýta frekar undir aðdráttarafl Hofs og Samkomuhússins fyrir listviðburði, fundi og ráðstefnur. Menningarfélag Akureyrar er gróðurhús fyrir hugmyndir, staður þar sem draumar geta ræst. Rík áhersla er því á grasrótina og að fóstra listræna hæfileika, með það að leiðarljósi að sem flestir angar lista- og menningarlífs dafni og blómstri. Menningarfélagið vill hlúa að frumsköpun og veita ungu fólki tækifæri til að eiga stefnumót við áhorfendur og skapa þannig ný samfélagsleg verðmæti.
Hugrekki og nýsköpun
Segja má að upptaktur stefnumótunarinnar hafi hafist strax við stofnun félagsins og unnið hefur verið eftir þeim takti í vetur. Menningarfélagið er óhrætt við að takast á við áskoranir eins og frumflutning á nýjum íslenskum verkum, bæði á sviði leiklistar og sinfónískrar tónlistar. Síðastliðinn vetur setti Leikfélag Akureyrar upp fjölskyldusýninguna Núnó og Júníu og sýndi með því mikla áræðni, því það krefst hugrekkis að bjóða upp á eitthvað nýtt, eitthvað ókunnugt. Allar sviðsuppfærslur Leikfélags Akureyrar undir hatti Menningarfélagsins hafa verið nýskrif, ný leikrit, leikgerðir eða samsköpunarverkefni. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumflutti verk eftir Kjartan Valdimarsson og setti auk þess stórbrotna kvikmyndatónlist Atla Örvarssonar í glæsilega umgjörð með lifandi flutningi í Hamraborg við mikla hrifningu áhorfenda. Sinfóníuhljómsveitin hefur markað sér braut sem framsækin og áræðin hljómsveit. Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri tók nýverið fyrir hönd Sinfóníuhljómsveitarinnar á móti athafna- og nýsköpunarverðlaunum Akureyrarbæjar fyrir frumkvöðlastarf í upptökum á kvikmyndatónlist í menningarhúsinu Hofi og sköpun nýrra tækifæra fyrir tónlistarfólk.
Fjárfesting til framtíðar
Framtíðarsýn Menningarfélagsins byggir á þeirri forsendu að aukið fé verði sett í framleiðslu, en framlög til reksturs Leikfélags Akureyrar hafa staðið í stað frá 2007 og ekki hefur heldur verið tekið tillit til verðlagsbreytinga hjá hinum félögunum í fjárframlögum hins opinbera til Menningarfélagsins. Aukið framleiðslufé mun gera Leikfélagi Akureyrar kleift að ráða til sín leikhóp og tónlistarsviði Menningarfélagsins mögulegt að veita atvinnutónlistarmönnum á Norðurlandi tækifæri til að lifa á list sinni. Áætlanir vetrarins hafa staðist og er reksturinn stöðugur. Hinn rauði þráður í nýrri stefnumótun er ekki einungis stóraukin listrænn og samfélagslegur ávinningur heldur einnig rekstur í sátt við umhverfi og samfélag.