Jóhannesarpassían - Minningartónleikar um Áskel Jónsson
Flytjendur eru Mótettukór Hallgrímskirkju, Alþjóðlega barokksveitin í Den Haag og glæsilegur hópur ungra íslenskra einsöngvara undir stjórn Harðar Áskelssonar, kantors Hallgrímskirkju.
Tónleikarnir á Akureyri eru haldnir í tilefni af því að þann 5. apríl nk. verða 100 ár liðin frá fæðingu Áskels Jónssonar, föður Harðar Áskelssonar, en hann vann ómetanlegt uppbyggingarstarf sem organisti, kórstjóri og tónlistarkennari á Akureyri um áratuga skeið.
Johann Sebastian Bach (1685-1750) hefur ekki að ástæðulausu verið nefndur „fimmti guðspjallamaðurinn“. Engu tónskáldi hefur tekist betur en honum að klæða frásagnir Nýja testamentisins af Jesú Kristi í tóna. Jóhannesarpassían var fyrst flutt á föstudaginn langa 1724 í Leipzig í Saxlandi þar sem Bach starfaði sem tónlistarstjóri. Verkið er byggt á frásögn Jóhannesarguðspjalls af síðustu stundunum í lífi Jesú, píslum hans og krossfestingu. Bach málar sögusvið atburðanna á einstaklega áhrifaríkan hátt með mögnuðu tónmáli sínu. Kórinn gegnir lykilhlutverki í dramatískri framvindu frásagnarinnar og í þessu verki er að finna marga af glæsilegustu og áhrifamestu kórköflum tónlistarsögunnar. En Bach leitar líka djúpt undir viðburðaríkt yfirborð þessarar mikilvægustu frásagnar kristinnar hefðar. Undurfagrar aríur og fínlega dregnar sálmaútsetningar passíunnar eru óviðjafnanlegar biðstöðvar frásagnarinnar þar sem einsöngvarar og kór hugleiða hina hryggilegu atburði. Þessi tónlist talar á jafn afdráttarlausan, innilegan og uppbyggilegan hátt til mannssálarinnar nú eins og þegar hún hljómaði fyrst.
Mótettukór Hallgrímskirkju ræðst í þriðja sinn í það stórvirki að flytja Jóhannesarpassíuna og nú í fyrsta skipti ásamt hinni rómuðu Alþjóðlegu barokksveit í Den Haag, sem hefur margsinnis komið hingað til lands á undanförnum árum og flutt stórvirki barokktímans með kórum Hallgrímskirkju. Sveitin er skipuð tónlistarfólki sem hefur stundað nám við barokkdeild Konunglega tónlistarháskólans í Den Haag í Hollandi, eina mikilvægustu miðstöð rannsókna og kennslu á sviði barokktónlistar í heiminum. Samvinna sveitarinnar og Harðar Áskelssonar hefur vakið verðskuldaða athygli enda brautryðjendastarf hérlendis í tónlistarflutningi í hinum svokallaða upprunastíl þar sem þess er gætt að nálgast tónlist liðinna alda út frá forsendum hennar sjálfrar, eðli og inntaki og í ljósi staðgóðrar þekkingar á túlkunarvenjum hvers tíma fyrir sig.
Einsöngvarar á tónleikunum eru allir í hópi fremstu söngvara landsins af yngri kynslóðinni. Hinn 23 ára gamli tenór Benedikt Kristjánsson tekst í fyrsta sinn á við hið afar kröfuharða hlutverki guðspjallamanns, auk þess að syngja tenóraríur verksins. Andri Björn Róbertsson bassabaríton, sem þreytti nýverið frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Íslands, túlkar hlutverk Jesú. Aðrir einsöngvarar eru Þóra Einarsdóttir sópran, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran og Ágúst Ólafsson baríton.
5% afsláttur af miðaverði ef bókað er á vefnum.