Tveggja tíma hláturskast ... með hléi
Ýmsum óþrifnaði hefur ráðherrann ungi sópað undir teppi, atvinnulygarinn sjálfur, en þó aldrei dauðum manni og það á hótelherbergi með viðhaldinu sem er innsti koppur í búri stjórnarandstöðunnar. Það stóð ýmislegt til í þessu hótelherbergi en ekki þetta! Hvað gera ráðherrar nú?
Þeir hringja auðvitað í strangheiðarlegan og vammlausan aðstoðarmann sinn sem lendir í skítverkunum eins og venjulega. Það þarf að sjá um viðhaldið, fela verksummerki, losna við líkið, bera fé í útsmoginn þjón og síðast en ekki síst að halda öllu leyndu fyrir afbrýðisömum eiginmönnum og -konum.
Þessi drepfyndni gamanleikur kemur úr smiðju Ray Cooney konungs gamanleikjanna. Hann er Íslendingum að góðu kunnur en gamanleikirnir Með vífið í lúkunum, Tveir tvöfaldir og Viltu finna milljón? hafa allir notið vinsælda hér á landi.
Nei, ráðherra (Out of Order) hlaut hin eftirsóttu Olivier-verðlaun sem besti gamanleikurinn í Bretlandi þegar verkið var frumsýnt. Verkið hefur slegið í gegn víða um heim en fer nú í fyrsta skipti á íslenskar leikhúsfjalir og verður flutt í íslenskri heimfærslu Gísla Rúnars Jónssonar en hann hefur matreitt og kryddað marga af bestu gamanleikjum seinni ára hérlendis, m.a. Fló á skinni og Sex í sveit.