Fara í efni

Nei ráðherra - forsala hafin

•    Áhorfendasýning ársins flutt á Akureyri
•    Aðsóknarmesta sýning landsins verður sýnd í Menningarhúsinu Hofi eftir yfir 70 uppseldar sýningar í Borgarleikhúsinu
•    Drepfyndinn farsi í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Í aðalhlutverkum eru Guðjón Davíð Karlsson, Sigurður Sigurjónsson og Hilmar Guðjónsson

Tveggja tíma hláturskast ... með hléi

Ýmsum óþrifnaði hefur ráðherrann ungi sópað undir teppi, atvinnulygarinn sjálfur, en þó aldrei dauðum manni og það á hótelherbergi með viðhaldinu sem er innsti koppur í búri stjórnarandstöðunnar. Það stóð ýmislegt til í þessu hótelherbergi en ekki þetta! Hvað gera ráðherrar nú?

Þeir hringja auðvitað í strangheiðarlegan og vammlausan aðstoðarmann sinn sem lendir í skítverkunum eins og venjulega. Það þarf að sjá um viðhaldið, fela verksummerki, losna við líkið, bera fé í útsmoginn þjón og síðast en ekki síst að halda öllu leyndu fyrir afbrýðisömum eiginmönnum og -konum.

Þessi drepfyndni gamanleikur kemur úr smiðju Ray Cooney konungs gamanleikjanna. Hann er Íslendingum að góðu kunnur en gamanleikirnir Með vífið í lúk­unum, Tveir tvöfaldir og Viltu finna millj­ón? hafa allir notið vinsælda hér á landi.

Nei, ráðherra (Out of Order) hlaut hin eftirsóttu Olivier-verðlaun sem besti gamanleikurinn í Bretlandi þegar verkið var frumsýnt. Verkið hefur slegið í gegn víða um heim en fer nú í fyrsta skipti á íslenskar leikhúsfjalir og verður flutt í íslenskri heimfærslu Gísla Rúnars Jónssonar en hann hefur matreitt og kryddað marga af bestu gamanleikjum seinni ára hérlendis, m.a. Fló á skinni og Sex í sveit.

Leiksýningin verður sýnd á Akureyri í samstarfi Menningarhússins Hofs, Borgarleikhússins og Leikfélags Akureyrar.

Nánari upplýsingar í miðasölu Hofs s. 450 1000 og hér.

Til baka