Nemendur Leiklistarskólans sýndu afrakstur haustsins
Nemendur Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar sýndu afrakstur haustsins fyrir vini og vandamenn í Samkomuhúsinu um helgina. Tæplega 70 krakkar sýndu sjö leiksýningar og stóðu allir nemendur sig með mikilli prýði, sem heyra mátti á fagnaðarlátunum eftir hvern hóp.
Yngsta stigið, 2.-3. bekkur, vann með Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum og var aðalmarkmiðið að efla samvinnu og sköpunargáfu. Annað stigið, 4.-5. bekkur, sviðsetti ævintýrið um Hans hugprúða en í þeirra útgáfu fjallaði það um hugrökk systkini sem fara í ferðalag í leit að hræðslu.
Þriðja stigið, 6.-7. bekkur, vann með fýsík á sviði og tóku þau atriði og hópsöng úr Nightmare Before Christmas, eða Jólamartröð, þar sem fram koma ýmsar kynjaverur og mikið um samhæfingu í hreyfingum. Elsta stigið, nemendur 8.-10. bekkjar, vann með lengri verk og sýndu fullbúnar sýningar.
Jenný Lára Arnórsdóttir, skólastjóri LLA, er ánægð með afrakstur annarinnar. „Það er svo gaman og gefandi að sjá muninn á því hvernig krakkarnir eru í byrjun annar, oft feimin og óörugg, og sjá þau svo blómstra á lokasýningunum,” segir Jenný Lára sem segir mikinn metnað varðandi skólann.
„Við erum alltaf að vinna í því að breyta og bæta og má segja að vinna sem unnin hefur verið núna síðasta árið hafi skilað sér í þessum sýningum. Allur dagurinn gekk snurðulaust fyrir sig og ekki annað að heyra en nemendur, foreldrar og starfsfólk skólans og leikfélagsins hafi verið himinsæl eftir daginn.“
Skráningar fyrir vorönn skólans hefjast 18. desember næstkomandi og er fólk hvatt til að fylgjast með því á www.mak.is.