Nýdönsk með sína árlegu tónleika
Hljómsveitin Nýdönsk heldur sína árlegu tónleika í Hofi, laugardaginn 27.september n.k. Þessi langlífa sveit hefur sent frá
sér á annan tug hljómplatna og vinsæl lög sveitarinnar skipta tugum; Horfðu til himins, Alelda, Fram á nótt, Flugvélar og öll hin.
Nýdanskir hyggjast bjóða upp á fjölbreytta tónlistarveislu sem inniheldur það vinsælasta, frumlegasta, fallegasta og síðast en ekki
síst það nýjasta frá farsælum ferli.
Hljómsveitin fór til Berlínar í marsmánuði og hljóðritaði þar fimm ný lög sem saman hafa hlotið nafnið Diskó
Berlín, fyrri hluti. Upptökur fóru fram í Austur-Berlín og undu félagarnir sér vel við tónlistarsköpun og
schnitzelát.
Þeir sem kaupa miða á tónleikana munu eignast þessi lög og texta sér að kostnaðarlausu auk myndefnis frá upptökutímanum.
Miðasala hefst í byrjun maí.