Nýtt starfsár Menningarfélags Akureyrar er hafið!
Nýtt starfsár Menningarfélags Akureyrar er hafið!
Leikfélag Akureyrar ríður á vaðið með verkinu Hamingjudagar eftir Samuel Beckett. Sýningar fara fram í Black Box í Hofi og leikarar eru engin önnur en Edda Björg Eyjólfsdóttir og Árni Pétur Guðjónsson. Leikstjóri er Harpa Arnardóttir. Athugið að aðeins verða fjórar sýningar á Akureyri áður en verkið verður fært yfir í Borgarleikhúsið.
Haustið verður tileinkað einleikjum í Samkomuhúsinu. Söngleikurinn Góðan daginn, faggi er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur eftir Bjarna Snæbjörnsson og Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Einleikurinn Líf er eftir Margréti Sverrisdóttur sem leikur einnig en leikstjóri er Jenný Lára Arnórsdóttir og svo er það einleikurinn Fíflið sem er kveðjusýning Karls Ágústs Úlfssonar.
Í janúar er svo komið að stóru stundinni þegar Leikfélag Akureyrar í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumsýnir söngleikinn Chicago í Samkomuhúsinu. Með aðal hlutverkin fara Jóhanna Guðrún og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir. Leikstjóri er Marta Nordal. Á mak.is geturðu nælt þér í miða á þennan heimsfræga söngleik á sjóðheitu forsölutilboði.
Tónlistarárið hefst strax í september þegar heimsþekkti hljómsveitarstjórinn Anna Maria Helsing snýr aftur í Menningahúsið Hof til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Norðurlands túlka síðustu Lundúnarsinfóníu Haydn og fyrstu sinfóníu Beethovens.
Í október er komið að félögunum JóaPé og Króla til að stíga á svið með sinfóníuhljómsveitinni. Þetta verður án efa ógleymanleg stund.
Í janúar verða glæsilegir nýárstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands undir stjórn Daníels Þorsteinssonar ásamt stórsöngvurunum Þóru Einarsdóttur, Andra Birni Róbertssyni, Hönnu Dóru Sturludóttur og Degi Þorgrímssyni í Hofi.
Af páskatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands má enginn missa en þá mun Bjarni Frímann Bjarnason stjórna hljómsveitinni þegar Brandenborgarkonsert Bachs og kórverk hans um þrautagöngu og leyndardóma handan grafar og dauða mæta sturlaðri og sundurskotinni skrumskælingu á einleikskonsert barrokktímans.
Í maí er komið að viðburðinum Steinunn Arnbjörg og stofutónlistin. Á efnisskrá eru verk eftir Steinunni sjálfa, íslensk-kanadíska tónskáldið Véronique Vöku og Franz Schubert.
Nú um helgina fer fram Akureyrarvaka og þar af eru ýmsir spennandi viðburðir í Menningarhúsinu Hofi. Eins verður Fjölskyldufjör með Halla, Góa og Jóni Ólafs í Samkomuhúsinu strax í byrjun september.
Skoðaðu dagskrá Akureyrarvöku í Hofi og lestu nánar um starfsár Menningarfélagsins og aðra viðburði í Hofi og Samkomuhúsinu á mak.is og vertu með frá fyrsta degi!